15.1.2010 | 09:47
Reddast allt með Icesave-undirskrift?
Það er athyglisvert að staðan í Icesavemálinu hefur orðið ríkisstjórninni að allsherjarafsökun fyrir hvaðeina sem úrskeiðis fer. Öllum eru í fersku minni, hótanirnar og hræðsluáróðurinn sem óð uppi eftir að forsetinn synjaði Icesavelögunum staðfestingar. Daglega er reynt að halda því að okkur að flest lagist ef við undirgöngum Icesavesamning Jóhönnu og Steingríms.
Auðvitað er þetta ekki svona. Ríkisstjórnin hefur klárað það hjálparlaust að klúðra málum sínum og hefur ekkert þurft að styðja sig við vandræðin í sambandi við Icesave.
Því er haldið fram að lyktir Icesave muni lækka vexti. Það er ekki þannig. Rifjum upp vandræðaganginn frá því á síðasta ári þegar forsætis- og fjármálaráðherra gáfu hvert fyrirheitið á fætur öðru um vaxtalækkun en ekkert gerðist. Hvað er líka oft búið að segja okkur að gengið sé um það bil að fara að styrkjast, framkvæmdir að hefjast og þar fram eftir götunum.
Einu sinni átti allt að gerast við breytingar í stjórn Seðlabankans. Það gekk ekki eftir og þá varð ESB umsóknin haldreipið. Og ekkert breyttist heldur. Þá var okkur sagt að allt myndi verða með öðrum róm með nýjum fjárlögum. En það var sama sagan.
Og nú á sem sagt allt að fara til betri vegar ef við samþykkjum nauðungina frá Hollandi og Bretlandi.
Þannig halda afsakanirnar áfram og skálkaskjólin hrúgast upp. Sannarlega þarf að höggva á Icesavehnútinn. En það verður ekki gert með því að fallast á þau ósköp sem ríkisstjórnin hefur undirritað og ber ábyrgð á.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook