17.1.2010 | 22:28
VG með skýra stefnu um votlendisfugla
Stóru tíðindin frá flokksstjórnarfundi Vinstri grænna á Akureyri um helgina er ekki hvað þar var sagt, heldur hvað þar var EKKI sagt. Ég las fundarsamþykktir VG fundarins þrim sinnum, áður en ég trúði mínum eigin augum. Þar gat ekki að líta eitt orð um Icesave og þá makalausu stöðu sem ríkisstjórnin hefur teflt því máli í. Þögnin er greinilega af tillitssemi við helsta ábyrgðarmann Icesaveklúðursins, fjármálaráðherrann, Steingrím J. Sigfússon formann VG.
Frá þessum mikla fundi er farið án þess að flokkurinn marki sér stefnu í því máli sem skekur þjóðfélagið og er mikill eldsmatur í flokknum, eins og öllum er ljóst. Flokkurinn hefur hins vegar kosið sér að vera meðvirkur og láta sem ekkert sé, þegar kemur að því máli sem mest er rætt þessi dægrin og hverfist svo mjög í kring um forystu VG.
Það er á hinn bóginn mikill léttir að vita að flokkurinn hefur skýra stefnu um búsetusvæði votlendisfugla og er einarður í því að Ísland verði aðili að African Eurasian waterbird agreement (AEWA). Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum var almenn samstaða um þetta stefnumál flokksins.
Til þess að friða órólegu deildina var svo samþykkt tillaga sem ítrekar flokkssamþykktir um ESB. Eins og allir muna brást þingflokkur VG stefnumótun flokksins í þessu máli og hafa þingmenn hans fengið bágt fyrir víða um landið. Nú er andstaðan ítrekuð og þeirri makalausu kenningu fleytt að þingmenn og ráðherrar flokksins eigi að vinna gegn ESB aðildinni sem þeir gáfu þó grænt ljóst á með samþykkt sinni á Alþingi um mitt síðasta ár!
Þetta er eiginlega of vitlaust til að það sé hægt að taka svona stefnumótun alvarlega.
Enda gerir það enginn. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar telur þetta mjög eðlilegt allt saman og segir það sína sögu um hversu marklaus þessi flokkssamþykkt er.
Af fundinum var það annars helst talið til tíðinda, að VG styddi ríkisstjórnina sem flokkurinn á aðild að. Segir það all nokkuð um stöðu ríkisstjórnarinnar að helst er það fréttnæmt talið að annar tveggja aðila að stjórnarsamstarfinu styðji það enn. Það var greinilega talið mikilvægara að senda þau skilaboð skýr frá fundinum, en að taka afstöðu til þess mikla máls sem er á leiðinni i þjóðaratkvæðagreiðslu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook