20.1.2010 | 14:55
Er þeim ekki sjálfrátt?
Eyjamenn efna til baráttufundar um sjávarútvegstengd mál á morgun. Gott hjá þeim. Það veitir ekki af því að raddir fólks úr sjávarútveginum heyrist. Nóg er af því niðurrifs og neikvæðnistali sem ómar um undirstöðuatvinnugrein okkar. Sjávarútvegsstefna stjórnvalda miðar að því að draga úr hagkvæmni í atvinnugreininni að því er sjálfur sjávarútvegs og landbúnaðarráðherrann segir okkur. Sennilega er það einsdæmi að fagráðherra boði að stefna hans sé að draga úr sveigjanleika og þar með hagkvæmni atvinnugreinar þar sem hann ber ábyrgðina.
Ég vakti athygli á þessu á Alþingi eins og hér má lesa og í grein í Fiskifréttum og það má lesa hér.
Það er ömurlegt að vita hvernig sjávarútvegsumræðan þróast. Aldrei er spurt þeirrar sjálfsögðu spurningar hvort tilteknar breytingar verði atvinnugreininni til styrktar. Hin pólitísku markmið sem nú eru iðkuð í skjóli stjórnvalda lúta aldrei að því. Samt er á því klifað að sjávarútveginum sé ætlað að standa undir stærri hluta þjóðarbúskapar okkar en fyrr. Það er eins og markmiðið sé að dæma samfélagið til verri lífskjara.
Við erum svo lánsöm að búa við öflugan og góðan og vel rekinn sjávarútveg. Þeir sem kaupa af okkur sjávarafurðir tala um það einum rómi. Menn treysta því að hér sé rekinn sjávarútvegur á grundvelli sjálfbærrar auðlindanýtingar með langtímahagsmuni í huga.
Það þýðir hins vegar ekki að sjávarútvegslöggjöfin verði ekki að taka breytingum eða hún verði ekki að þróast. En það er mjög áríðandi að þær breytingar kalli ekki á kollsteypur og óvissu. Nógir eru nú óvissuþættirnir eðli málsins samkvæmt hjá atvinnugrein sem nýtir takmarkaða náttúruauðlind á erfiðu hafsvæði og heyr harða baráttu á harðsóttum mörkuðum úti um allan heim.
Sjávarútvegur okkar er orðlagður fyrir áreiðanleika í afhendingu á vörum. Menn gera langtímaplön um sókn í fiskinn til þess að geta tryggt kaupendum sínum afurðir allt árið. Forsenda þessa er sveigjanleiki. Ásetningur stjórnvalda er sá að brjóta niður þennan sveigjanleika, sem veikir sjávarútveginn; þá atvinnugrein sem ætlað er að standa undir vaxandi hluta lífskjara þjóðarinnar.
Það er eins og þessum mönnum sé ekki sjálfrátt.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook