28.1.2010 | 10:03
Markaðurinn er litblindur - segir Ögmundur
Ögmundur Jónasson alþingismaður hefur sýnt það í gegn um tíðina að hann er vel verseraður í kenningum um markaðsbúskap, kapítalsimann. Oftast nær hefur hann nýtt sér þekkingu sína til þess að gagnrýna markaðsbúskapinn og sjaldnast dregið af sér.
En ekki núna. Hann skrifaði ákaflega athyglisverða grein í Fréttablaðið á dögunum og varpaði lofsamlegu ljósi á kapítalsimann. Beitti þar kunnuglegum rökum, sem lesa má til dæmis um í fræðum frjálshyggjumanna.
Frjálshyggjumenn vitna gjarnan til þess að markaðurinn sé litblindur og það er einmitt heiti þekktrar bókar sem varpar ljósi á þessa kenningu. Hún gengur út á að sá sem stundi viðskipti á markaði verði að snúa sér þangað sem ágóðavonin er mest. Þess vegna hafi til dæmis markaðurinn og viðskiptin átt sinn þátt í að fella kúgunarstjórn hvítra í Suður Afríku.
Í markaðsviðskiptum komist menn nefnilega ekki upp með annarlegar hvatir og fordóma. Menn tapi fjármunum á slíku og verði því undir í samkeppninni. Markaðurinn haldi mönnum við efnið og afstýri því í raun að þeir láti annað en hagnaðarvonina ráða sinni för.
Þetta er einmitt ábending Ögmundar Jónassonar í greininni fyrrnefndu er hann segir:
Kapítalisminn er ágengari en margir halda; túristinn frá München ætlar til Íslands í sumar hvað sem tautar og raular; Ikea ætlar að selja Jóni og Gunnu á Íslandi stól og borð -fiskkaupmaðurinn í Grimsby ætlar að koma íslenskum fisk á veitingahúsaborð í London. Hann ætlar ekki að einangra Ísland.
Þetta er einmitt kjarni málsins. Í hollensku og bresku konungsríkjunum hrína ráðherrarnir við hátt út af Icesave . En þeir ráða ekki einir förinni. Markaðurinn tekur af þeim völdin. Af því að hann er litblindur, eins og Ögmundur lýsir svo listavel. Menn hæta ekki viðskiptum við Ísland, þó hótanir berist úr stjórnaráðum Breta og Hollendinga. Og heldur ekki þó undir röksemdir þeirra sé tekið af ólíklegasta fólki hér á landi. Markaðurinn fer sínu fram eins og þeir hafa bent á Ögmundur og frjálshyggjumennirnir.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook