Byggðaáherslum hent út í hafsauga

Jón BjarnasonEftir að meirihluti sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar Alþingis hafði velt fyrir sér hinu umdeilda sjávarútvegsfrumvarpi sem Alþingi hefur til meðhöndlunar varð niðurstaðan sú að bara þyrfti einu að breyta. Meirihlutinn komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að leggja ekki fjármuni þá sem fengjust út  úr uppboðum á aflaheimildum í skötusel til byggðamála, eins og sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra  hafði lagt til. Þess í stað yrðu þeir lagðir til annarra verkefna, en byggðaverkefna.

Þetta er alveg sjónarmið í sjálfu sér. Það er ekki hægt að kvarta undan því að stefna þessara þingmanna sé ekki skýr. Hún er alveg afdráttarlaus. Þeir vilja ekki fallast á tillögu Jóns Bjarnasonar. Þeir hafa velt henni fyrir sér og hafnað henni. Að þeirra mati er fjármunum þessum betur varið til annarra þátta en byggðamála.

Þá vitum við það. Samhengisins vegna er lesendum bent á að glöggva sig á hverjir hafa haft forystu um þessa stefnumótun með því að smella hér í tölvunni á þessi orð.

Eftir þetta þurfum við ekki frekari vitna við. Forgangsröðunin er skýr, stefnan afdráttarlaus og eindreginn. Þetta er með öðrum orðum einbeittur vilji tilgreindra þingmanna,  sem aðrir þingmenn VG og Samfylkingar búa sig nú undir að samþykkja.

Hitt er svo ekki síður athyglisvert, að þetta er það eina í þessu frumvarpi sem þingmennirnir telja að þurfi breytinga við. Allt annað sem menn hafa bent á, frumvarpinu til vansa, er að mati meirihluta nefndarinnar  ekki þess eðlis að undir það beri að taka.

Ekki heldur kröfu allra sjómannasamtaka landsins og ASÍ um að málið sé afturkallað.  Það er ekkert gert með þau viðhorf. Þau eru ósanngjörn, eins og einn nefndarmaðurinn orðaði það í orðaskiptum við mig í þinginu sl. fimmtudag.  Og um þetta  er fullkominn einhugur í liði VG og Samfylkingar,  ekki síður en um að henda  byggðaáherslum frumvarpsins út í hafsauga, svo gripið sé til viðeigandi myndlíkingar í umfjöllun um sjávarútvegsfrumvarp.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband