Samfylkingar-heilkennið

KökuritTil þess að skilja pólitískan þankagang Samfylkingarinnar þarf maður bara að kunna skil á einu: Stöðu flokksins í skoðanakönnunum. Enginn stjórnmálaflokkur er neitt í námunda við Samfylkinguna þegar kemur að þessu. Flokkurinn stjórnast af útkomu skoðanakannana. Góðar kannanir fyrir flokkinn fylla hann oflátungsbrag. Slæmar kannanir; og talsmenn flokksins fara á óútreiknanleg gönuskeið í allar áttir.

Samfylkingunni vegnar afar illa þessi dægrin. Það eina sem upp gengur hjá flokknum eru svipuslögin sem ganga frá flokknum yfir þvera hrygglengju Vinstri grænna. Annað er allt hið daprasta hjá Samfylkingunni. Og þá sérstaklega það sem ristir næst hjartarótum flokksins; fréttirnar úr skðanakönnunum.

Staða Samfylkingar í skoðanakönnunum er svona: Flokkurinn er orðinn jafnfætis eða stendur tröppunni lægri en hinn vinstri flokkurinn, samstarfsaðillinn í hinni hreinræktuðu vinstri stjórn; Vinstri hreyfingin grænt framboð. Flokkurinn sem Samfylkingin útmálaði og sá fyrir sér sem vinstrið úti í buskanum. Litli öfga flokkurinn, að hætti þeirra vinstri smáflokka sem á Norðurlöndunum finnast og brúklegur gæti orðið sem aum stoð fyrir vinstri stjórnir framtíðarinnar

En nú er raunveruleikinn orðinn annar. Á meðan Samfylkingin skreppur saman, verða Vinstri grænir æ bústnari. Þetta er farið að nísta bæði merginn og beinin í skoðanakannanaflokknum, Samfylkingunni.

Þess vegna er t.d Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra svona jafnvægislaus og sleggjudómakenndur í Fréttablaðinu á laugardaginn. Þess vegna veður hann áfram í tómri endaleysu. Lýgur upp históríum um heilu atvinnugreinarnar og ímyndar sér að hann sé búinn að leysa vanda heimilanna, þó allir aðrir viti að það er vitleysa.

Hann er haldinn Samfylkingar-heilkenninu. Jafnvægisleysinu sem steypist yfir flokkinn þegar skoðanakannanir ganga þeim í mót. Í þessu ljósi á að lesa drottningarviðtalið við ráðherrann. Hann lætur ekki svona alltaf. Bara stundum. Og þetta er ekki alveg honum að kenna. Munum að hann er Samfylkingarmaður og þeir láta svona þegar skoðanakannanir mæla þá litla og laskaða. Sýnum honum því umburðarlyndi og verum nærgætin.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband