15.2.2010 | 21:54
Stjórnin grandar störfunum
Svo mikla trú hafði ríkisstjórnin á hæfileikum sínum í árdaga stjórnarsamstarfsins að ráðherrarnir þóttust geta spáð fyrir um fjölgun starfa með algjörri nákvæmni. Þann 6. mars í fyrra var boðað til blaðamannafundar til þess að greina frá miklum áformum um fjölgun starfa. Þeir fundir áttu eftir að verða fleiri og sá síðasti var haldinn fyrir fáeinum dögum.
Þessir montfundir ganga allir út á að segja að í nánd sé mikil viðreisn atvinnulífsins. Jafn oft hafa þeir verið sem loftkennd fyrirheit sem eiga eitt sameiginlegt. Að hafa engin gengið eftir.
Fyrir tæpu ári voru ráðherrarnir nákvæmir. Spáðu því að störfum myndi fjölga um 4.023 vegna aðgerða sinna. Ekki um 4.022 störf og heldur ekki 4.024 störf. Nei. Hin nákvæma tala var 4.023 störf. Skaði að vísu að ekki var reynt að vera dálítið nákvæmari og mæla starfafjöldann með aukastöfum og öllu klabbinu!
En nú er tæpt ár liðið og hægt að slá máli á árangurinn. Það má segja, svo allrar sanngirni sé gætt, að hinum nákvæmu ráðherrum hafi skjöplast aðeins. Það munar fyrst og fremst einu orði. Í stað þess að störfunum hafi FJÖLGAÐ þá FÆKKAÐI þeim ! Atvinnuleysi hefur aukist. Ríkisstjórnin hefur reynst stórtæk og miðar vel í því að granda störfum. Það verður ekki með nokkurri sanngirni af henni skafið.
Þessi árangur náðist meðal annars með því að hóta fyrningu aflaheimilda, sem dregur úr atvinnusköpun í sjávarútvegi og fælir þessa undirstöðuatvinnugrein frá því að fjárfesta. Það munar um minna en þegar okkar öflugasti atvinnuvegur er settur í þannig stöðu.
Síðan strita ráðherrar við að bregða fæti fyrir orkuuppbyggingu. Væri það ekki fyrir þennan eintrjánungshátt væru hér á fullri ferð ýmis konar fjárfestingar sem við eigum nú ekki kost á.
Síðan eru það auðvitað skattarnir og álögurnar sem eru að íþyngja atvinnulífinu og koma í veg fyrir fjárfestingar sem og þau fótakefli önnur sem ríkisstjórnin notar og tefja atvinnulega uppbyggingu.
Þetta er að valda því mikla frosti og stöðnun sem blasir við alltof víða. Menn hafa lært það að búast ekki við miklu af núverandi stjórnvöldum. En það er illt að búa við stjórnvöld sem tefja endurreisnina í stað þess að stuðla að henni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook