23.2.2010 | 11:33
Nýja Ísland - hvenær kemur þú?
Ráðherrar slá úr og í þegar kemur að því að hafa skoðun á einstökum ákvörðunum nýju bankanna. Forsætisráðherra segir á Viðskiptaþingi að ekki eigi að tíðkast bein afskipti stjórnmálamanna af fjármálakerfinu. Umdeildar ákvarðanir bankanna afgreiða viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra þannig að það sé ekki á forræði þeirra að skipta sér af málum.
En er málið alveg svona einfalt?
Alls ekki. Stjórnmálamenn hljóta og eiga að hafa skoðanir á því hvernig við stillum upp þjóðfélaginu, án þess að það feli í sér að þeir séu með nefið oní öllum koppum kyrnum samfélagsins.
Tökum dæmi.
Stjórnmálamenn hljóta að hafa skoðun á því hvort hér þróist að nýju fyrirkomulag krosseignatengsla stórra fjármálafursta, sem aukinheldur verða til í kjölfar stórkostlegra skuldafskrifta þeirra í bönkum og fjármálastofnunum.
Stjórnmálamenn eiga að hafa skoðun á því hvort hér þróist samfélag, þar sem stærsta smásölukeðjan ráði líka lögum og lofum á fjölmiðlamarkaðnum. Fréttin um að hið markaðsráðandi fyrirtæki Hagar sem starfar í skjóli banka sem ríkið kom á laggirnar, beini öllum auglýsingaviðskiptum sínum til fjölmiðlasamsteypu í eigu þeirra sömu er óhugnanleg. Alveg sérstaklega vegna þess að þessir sömu eigendur eru að fá stórfelldar skuldalækkanir, jafnt vegna smásölurekstrar síns og vegna fjölmiðlasamsteypunnar; og það á kostnað banka sem ríkið tók yfir.
Hugsunin er greinilega sú að brjóta undir sig fjölmiðlana í landinu. Hér eru ekki lengur á ferðinni einvörðungu viðskiptalegar spurningar. Hér eiga ekki síður við pólitískar spurningar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komast einfaldlega ekki lengur hjá því að segja skoðun sína á málinu.
Verða hin nýju krosseignatengsl í boði Samfylkingar og Vinstri grænna? Hugnast forystumönnum þessara flokka sú tilraun til einokunar sem þarna glittir svo rækilega í og mun valda einsleitni á fjölmiðlamarkaði í ofanálag við markaðsráðandi stöðu á smásölumarkaði, þar sem þeir sömu verða í aðalhlutverkum?
Er þetta virkilega hið Nýja Ísland sem menn hafa verið að tala um?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook