28.2.2010 | 22:11
Þeim er ekki treystandi fyrir þjóðarhag
Ríkisstjórnin er trausti rúin í hugum almennings þegar kemur að spurningunni um hvort henni sé treystandi til að gæta hagsmuna okkar í samningum við ESB. Skoðanakönnun sem Capacent vann og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna gerði grein fyrir í mjög kröftugri ræðu við setningu Búnaðarþings leiðir þetta í ljós.
Einungis 26,7 prósent landsmanna treysta ríkisstjórninni til þess að gæta hagsmuna okkar í samningum við ESB. Sem þýðir að nær 75% landsmanna svara því ekki ekki játandi hvort stjórninni sé treystandi til að gæta þjóðarhags.
Þetta er algjört kjaftshögg fyrir ríkisstjórnina. Þetta er kjaftshögg greitt bæði Samfylkingu og Vinstri grænum. Báðir þessi flokkar bera sameiginlega ábyrgð og hvorugur getur vikið sér undan henni. VG sem kýs að bera kápuna á báðum öxlum í ESB málinu er ekki frekar en Samfylking talin gæta þjóðarhags.
Ríkisstjórn sem að mati þjóðarinnar gætir ekki þjóðarhags, er eins trausti rúin og nokkur ríkisstjórn getur verið. Menn geta haft ýmsar skoðanir á einstökum stefnumálum ríkisstjórna. En þegar allur almenningur telur ekki að ríkisstjórn landsins gæti hagsmuna þjóðarinnar í flóknum og afdrifaríkum samningaviðræðum, er staðan orðin heldur betur alvarlegri.
Í samningum um ESB er sjálft fjöregg þjóðarinnar undir. Það er tekist á um grundvallarhagsmuni. Mat manna á afleiðingum ESB aðildar er að sönnu misjafnt. En það er ekki það sem þetta mál snýst um. Niðurstaða könnunarinnar leiðir bara einfaldlega það í ljós almenningur treystir ekki ráðherrunum, - hvaða nafni sem þeir nefnast, úr hvorum stjórnarflokknum sem þeir koma, - einfaldlega ekki til að trygga hagsmuni okkar. Svo skelfilegt er það.
Alvara ESB málsins er líka stöðugt að verða augljósari. Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram sjónarmið sín. Samningsgrundvöllurinn sem þeir leggja fram, sýnir að hagsmunir sjávarútvegs og landbúnaðar verða bornir fyrir borð í aðild að Evrópusambandinu. Samt sem áður vaða menn af stað til þessara viðræðna.
Það er rétt sem Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna segir. Aðildarumsóknin að ESB er best heppnaða brella seinni ára. Og brellumeistararnir er ráðherrarnir og þingmenn stjórnvarflokkanna. Gildir þar engu hvort þeir heita Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, eða Jón Bjarnason. Öll eru þau þátttakendur í þessum klækjabrögðum sem þjóðin fyrirlítur svo mjög.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook