2.3.2010 | 08:49
Hvernig endar sá útreiðartúr?
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna flutti mjög góða og kröftuga ræðu við upphaf Búnaðarþings, þann 28. febrúar sl.. Hann greindi meðal annars frá afar athyglisverðri skoðanakönnun sem leiðir í ljós að einungis um fjórðungur landsmanna treystir ríkisstjórninni til þess að gæta hagsmuna okkar í samningum við ESB. Um þetta fjallaði ég á bloggi í gær, sem hér má lesa.
Þetta er eitt mesta kjaftshögg sem nokkur ríkisstjórn getur fengið. Ríkisstjórn sem fær þann dóm þjóðarinnar að henni sé ekki treystandi fyrir þjóðarhagsmunum í samskiptum við aðrar þjóðir, á ekki lengur trúnað þjóðarinnar. Og þegar hann er farinn er lífsneistinn slokknaður.
Í ræðu sinni greip formaður Bændasamtakanna til myndlíkingar, sem vakti mikla athygli fundarmenna. Þar sagði:
"Sáttmáli stjórnarflokkanna um aðildarumsókn líkist því helst að ákveðið hafi verið að tvímenna í útreiðartúr til ESB-girðingarinnar. Annar snýr aftur og hinn fram í hnakknum og síðan hotta þeir á klárinn í sitt hvora áttina. Meðan aðildarsinninn horfir yfir taglið sér hann fyrirheitnu girðinguna fjarlægjast en streðar þó enn. Hinn þorir ekki að taka almennilega í tauminn og stöðva. Ekki get ég hugsað þá hugsun til enda, eins og sagt er nú á tímum, hvernig útreiðartúrinn endar. "
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook