7.3.2010 | 19:18
Þjóðin vann - stjórnin tapaði
Sigurvegari þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn var íslenska þjóðin. Kosningaþátttakan var ágæt og úrslitin afgerandi. En það var ríkisstjórnin sem tapaði. Rétt rúmlega tvö þúsund manns ljáðu Icesavesamningi ríkisstjórnarinnar atkvæði sitt. Er þetta eins konar innsigli á því hvernig þetta mál hefur þróast í höndum ríkisstjórnarinnar. Forystumenn hennar treystu sér ekki einu sinni til að styðja sitt eigið sköpunarverk.
Það er rétt. Málið hefur verið í miklu þófi. Þar er aðalsökudólgurinn ríkisstjórnin. Hún sýndi ótrúlega þrákelkni og þvergirðingshátt . Ríkisstjórnin þverneitaði að taka þátt í því að ná almennilegri samningsniðurstöðu fyrir land og þjóð líkt eins og við stjórnarandstæðingar kröfðumst mánuðum saman og beittum öllu okkar afli til að ná fram.
Ráðherrarnir sögðu líka að þjóðatkvæðagreiðslan myndi veikja samningsstöðu okkar í Icesavemálinu. Hið gagnstæða gerðist, eins og ráðherrarnir viðurkenna nú einnig. Þar með átu þeir ofan í sig hræðsluáróðurinn frá því í janúar og er lítið nýnæmi af slíku í lífi ríkisstjórnarinnar. Engin ríkisstjórn hefur étið jafn mikið ofan í sig eins og sú sem nú situr.
En áfram skröltir hún þó. Enginn efast um vilja forystumanna hennar til að sitja áfram. Það er helsta erindi stjórnarinnar; að sitja og verma ráðherrabekkina.
Dag hvern þurfa ráðherrar að svara fyrir það hvort líf ríkisstjórnarinnar sé að fjara út. Þessarar spurningar spyrja fréttamenn og þjóðin spyr þess sama. Og það mega ráðherrarnir vita, að það er ekki spurt að ástæðulausu. Hvert mannsbarn sér feigðarmerkin yfir höfði stjórnarinnar. Það er helst að það fari framhjá ráðherrunum 12.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook