Reynið ekki að firra ríkisstjórnina ábyrgð

Ríkisstjórn Jóhönnu SigurðardótturSinnuleysi stjórnvalda í málefnum atvinnulífs og heimila verður ekki skrifuð á nokkurn annan reikning en ríkisstjórnarinnar. Við Sjálfstæðismenn höfum lagt fram ítarlegar tillögur, barist fyrir þeim á Alþingi og reynt að vekja athygli á þeim hvar sem því hefur verið við komið. Við höfum líka haldið uppi málefnalegri gagnrýni á ríkisstjórnarinnar, rétt eins og ábyrgri stjórnarandstöðu ber að gera.

En það er meirihlutaríkisstjórn í landinu. Þetta er ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Það eru stjórnvöldin sem ferðinni ráða. Þetta þurfa þau að hafa í huga Sigurður Bessason formaður Eflingar stéttarfélags og Margrét Kristmannsdóttir formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Misskilin meðaumkun þeirra gagnvart ríkisstjórnarflokkunum má ekki verða til þess að villa þeim sýn á lýðræðislegar leikreglur, eins og borið hefur á í málflutningi síðustu daga. Það er alveg ástæðulaust að firra ríkisstjórnina ábyrgð á verkum sínum eða verkleysi.

Ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar

Það er ekki stjórnarandstaðan sem hefur lagt stein í götu fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Ríkisstjórnin hefur gert það gegn háværum mótmælum okkar í minnihluta Alþingis. Bankarnir starfa í skjóli ríkisvaldsins: þess sama ríkisvalds sem lýtur nú valdstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar. Ofurskattlagningin sem er að draga úr allri neyslu og umsvifum í samfélaginu var ákveðin gegn hörðum mótmælum okkar Sjálfstæðismanna. Við lögðum til allt aðrar leiðir. Þær leiðir hefðu forðað okkur frá skattastefnu vinstri flokkanna og skapað svigrúm til nauðsynlegrar opinberrar fjárfestingar sem hefðu örvað atvinnulífið og þar með neysluna. Við höfum líka hvatt til þess að auðvelda fjárfestingu einstaklinga  á nýjum sviðum, svo sem heilbrigðisþjónustu. Þar hefur ríkisstjórnin verið þversum. Það verður ekki bara skrifað á reikning heilbrigðisráðherrans. Þar ber ríkisstjórnin öll sína ábyrgð.

En niðurstaðan varð sú, sem gerist í lýðræðisríkjum. Hinn pólitíski meirihluti réði. Og þeir sem kusu ríkisstjórnarflokkana geta þá bara nagað sig í sín eigin handarbök.

Áfellisdómur yfir aumingjaskapnum

Frá upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs höfum við Sjálfstæðismenn ætíð hvatt til samstöðu og lagt okkar af mörkum til þess. En sú samstaða má aldrei verða kostnað almannahagsmuna, eins og gerst hefði til dæmis, ef við hefðum lotið í gras með ríkisstjórnarflokkunum í Icesavesamningnum. Tafirnar í því máli eru algjörlega á kostnað þeirra. Lítilþægni þeirra  gagnvart grjóthörðum samningamönnum Breta og Hollendinga hefur auðvitað kallað á hörð viðbrögð okkar í stjórnarandstöðunni.

Og nýleg þjóðaratkvæðagreiðsla er áfellisdómur yfir aumingjaskap íslenskra stjórnvalda í að gæta þjóðarhags. Því verður að minnsta kosti ekki trúað að svo ágætt fólk, sem hér er að ofan vísað til, hafi talið það til tjóns að bregðast til varnar þegar löglega kjörin stjórnvöld voru í þann mund að fórna þjóðarhagsmunum á altari stórháskalegs Icesavesamnings.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband