15.3.2010 | 08:45
Óp úr sýndarveruleikanum
Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeirri sjálfsblekkingu sem virðist einkenna málaflutning ráðherranna um þessar mundir. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra dregur upp glansmynd af ástandinu í landinu og urrar reiðilega um að hann sé orðinn þreyttur á sífri almennings, aðila vinnumarkaðarins og stjórnmálamanna um að ríkisstjórnin sé ekkert að gera.
Iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir svarar fyrir atvinnustefnu stjórnvalda á Alþingi og talar um að störfin séu að verða til í hrönnum í landinu. Og þetta segir ráðherrann kortéri áður en birtar eru nýjar tölur um atvinnuleysi, sem nú slær enn fyrri met.
Ráðherrar sem tala svona eru auðvitað ekki stödd í sama veruleika og hinn hluti þjóðarinnar. Tölurnar um atvinnuleysið, vitnisburður atvinnulífsins, neyðarkall ASÍ, reiði almennings vegna aðgerðarleysisins. Allt talar það sínu máli. Óp ráðherranna úr sýndarveruleikanum breyta engu um þær staðreyndir.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook