16.3.2010 | 22:21
Vill Sjálfstæðisflokkurinn standa vörð um skattsvikin?
Varla trúir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vitleysunni úr sjálfum sér. Hún kom fram með þá ósvífnu fullyrðingu á blaðamannafundi í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið áhugalaus um að uppræta skattsvikin í landinu. Sem sagt. Það er skoðun forsætisráðherrans að til sé stjórnmálaflokkur sem vilji sjá í gegn um fingur sér gagnvart skattsvikurum. Sé eins konar skjól fyrir skattsvikara í landinu.
Er nú hægt að rata niður á mikið lægra plan. Eða eins og unga fólkið slettir stundum; how low can you go?
Forsætisráðherra ætti að líta sjálfri sér nær. Ríkisstjórnin undir forsæti hennar hefur linnulaust breytt skattkerfinu og gert það flóknara. Og það er byrjunarlexía í skattamálum að eftir því sem skattkerfin verða flóknari því líklegri verði skattundanskotin.
Það er þó ekki vegna sérstakrar löngunar til þess að opna glufur í skattkerfið að ríkisstjórnarflokkarnir fóru í að flækja það. Aðrar hvatir og pólitísk skammsýni réðu þeirri feigðarför.
Og svo er rétt að rifja það upp að það var árviss viðburður við fjárlagagerð að Jóhanna Sigurðardóttir flutti billegar tillögur um bætt skattaskil með auknu skattaeftirliti. Aldrei neitt rökstutt, aldrei neitt útfært. Allt saman aumt yfirklór til þess að mæta ( í þykjustunni auðvitað) milljarðaútgjaldahugmyndum þingmannsins við fjárlagagerðina.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook