18.3.2010 | 08:55
Ný tegund af Fjórflokki
Hugtakið Fjórflokkur er vel þekkt í stjórnmálaumræðunni. Það er í rauninni samheiti yfir þá fjóru stjórnmálaflokka sem eru stærstir hér á landi. Núna eru það Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og svo vinstri flokkarnir Samfylking og Vinstri grænir, sem leystu af hólmi aðra vinstri flokka sem skipað var í þá virðulegu sveit fjórflokkinn.Er þar auðvitað átt við þá sálugu stjórnmálaflokka, Alþýðuflokk og Alþýðubandalag.
En nú hefur hinn gamli Fjórflokur, með stórum staf, fengið óvænta samkeppni. Það hefur orðið til nýr Fjórflokkur.- Fjórflokkurinn á vinstri væng stjórnmálanna
Það hefur ekki farið framhjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki lengur tveir. Þeir eru amk. fjórir. Það er hin formlega Vinstri hreyfing grænt framboð og svo auðvitað Órólega deildin, sem vel fer á að skrifuð sé með stórum staf og greini. Síðan er það Samfylkingin.Á síðustu dögum hefur þar birst innanborðs, önnur Óróleg deild,(með stórum staf) sem setur skilyrði um stuðning við stjórnina; skilyrði sem eru fyrirsjáanlega óaðgengileg fyrir VG. Þessi nýja deild í Samfylkingunni setur á svið leikrit þar sem félagsmenn spyrja hverjir aðra út úr í þingsölum Alþingis og senda VG dulbúnar pillur.
Það er því í raun svo, eins og alþjóð fylgist með, að við völd í landinu er ekki lengur tveggja flokka ríkisstjórn, heldur fjórflokka ríkisstjórn, með ótöldum sellum af gamla toganum innanborðs.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook