23.3.2010 | 11:58
Iðnaðarráðherrann hramsaði til sín peningana
Skötuselslögin sem Alþingi samþykkti illu heilli í gær hafa á sér margar skrautlegar hliðar. Ein snýr að því hvernig verja eigi fjármunum þeim sem fást fyrir sölu á aflaheimildunum í skötusel
Upphafleg ætlun sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra var að verja þeim peningum að meirihluta til byggðamála sérstaklega. Voru höfð um þetta mörg og fögur orð og þýðinguna fyrir byggðirnar. Það gerðist hins vegar að meirihluti sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar þingsins breytti þessu og vildi ráðstafa þessu í gegn um sjóð sem heyrir undir iðnaðaráðherrann og hefur ekkert með byggðamál að gera. Um það skrifaði ég á sínum tíma og lesa má um hér.
Ekkert var sagt til að útskýra þessa stefnubreytingu. Því knúði ég á um að ráðherra málaflokksins, Jón Bjarnason útskýrði sinnaskiptin. Hann svaraði því svona: Síðan geri ég ráð fyrir að sá ráðherra sem fer með byggðamál ( hafi) komið sjónarmiðum sínum varðandi þetta á framfæri við nefndina, a.m.k. var þessu breytt?
Sem sagt. Sjávarútvegs og landbúnaðaráðherra upplýsir að það hafi verið iðnaðarráðherrann ráðherra annars málaflokks, - sem hramsaði þessa fjármuni til sín, á bak við ráðherrann sem málið flutti og var ábyrgðarmaður þess. Þetta er skrautlegt, svo ekki sé nú meira sagt.
Ég flutti breytingartillögu ásamt félögum mínum um að hverfa frá þessu og færa málið í fyrrnefnt horf, ráðstafa peningunum til byggðamála. Átakanlegt var að sjá þingmenn VG hafna þessari byggðaáherslu og kyssa enn einu sinni á vönd Samfylkingarinnar.
Auðmýkt og undirgefni VG í samskiptum við samstarfsflokkinn í ríkisstjórninni eru greinilega fá takmörk sett.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook