11.4.2010 | 14:14
Svipaðar spurningar og svörin eins
Á sama tíma og við búum okkur undir að sjá hvað hin svo kallaða rannsóknarnefnd hefur fram að færa í skýrslu sinni og sem skilað verður á morgun, fer fram sambærileg umræða víðar. Í Bandaríkjunum er athyglisvert að spurt er nákvæmlega sömu spurninganna og hér um efnahagshrunið þar í landi. Sama á við víðar. Í Bretlandi hefur farið fram mikil umræða um þetta sama og alveg á sömu nótum. Og þannig er það miklu víðar.
Hvers vegna sá þetta enginn fyrir? Af hverju gripu bankar og eftirlitsstofnanir ekki til varna til þess að afstýra því versta? Þetta eru spurningarnar sem menn spyrju; rétt eins og hér.
Í Bandaríkjunum fara menn aðrar leiðir en hér. Við ákváðum, í breiðri pólitískri samstöðu, að fela þremur sérfróðum einstaklingum að kafa ofan í álitamálin og þeir nutu margháttaðrar aðstoðar. Niðurstaðan mun birtast á morgun á þúsundum blaðsíðna.
Í Bandaríkjunum fara nú fram opnar yfirheyrslur á vegum þingnefndar um hið sama. Þar kom fyrstur fyrir nefndina Alan Greenspan fyrrv.seðlabankastjóri. Síðar komu fulltrúar bandaríska bankarisans Citibank. Ég sá hrafl úr þessum yfirheyrslum og fannst athyglisvert að heyra sameiginlegt mat begga aðila, sem var einhvern veginn svona:
Þessa miklu atburði var engan veginn hægt að sjá fyrir. Það voru eftirlitstofnanir, matsfyrirtæki, stóð eftirlitsaðila innan bankanna, fjölmiðlar, háskólaakademían og áfram mátti telja á meðal þeirra sem gleggst máttu vita, sem ekki brugðust við. Einsfaldlega af því þeir gerður sér ekki grein fyrir í hvað stefndi. Fæstir uggðu að sér.
Fáeinir vöruðu að sönnu við, en fæstir geta þó sagt með sanni að þetta hrun hafi blasað við þeim eins og opin bók. Spurningarnar eru svipaðar og svörin nánast eins; alls staðar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook