13.4.2010 | 16:28
Prívatsparibaukar fyrir eigendurna
Ég var talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um umrædda skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins nú fyrr í dag. Ræðuna má heyra hér. Í ræðunni minni vék ég meðal annars að þeirri ótrúlegu staðreynd að jafnskjótt og tilteknir fjárfestahópar eignuðust banka, hófust makalaus útlán úr þessum sömu bönkum til eigendanna. Í þeim kafla ræðunnar segir meðal annars:
"Það er hrollvekjandi að lesa hvernig tilteknir eigendur bankanna hafa beitt eigendavaldi sínu af ótrúlegri skammfeilni til þess að ryksuga til sín fjármuni úr bönkunum og það án þess að gerð væri krafa um eðlileg veð. Almennum viðskiptavinum var gert að leggja fram ítrustu veðtryggingar, en það var ekki látið gilda um þá sem mestu umsvifin höfðu, rétt eins og við sjáum nú í hinum gríðarlegu útlánatöpum bankanna.
Stærstu eigendurnir virðast hafa litið á bankana sem prívatsparibauka sem eðlilegt væri að nota til þess að fjármagna kaup og yfirtökur á fyrirtækjum og eignum út um allar þorpagrundir. Það eru engar eðlilegar viðskiptalegar skýringar á því að þegar einstakir fjárfestar komu höndum yfir bankana, ruku upp útlánin úr sömu bönkum til fyrirtækja þeirra.
Það er til dæmis ein af hinum ótrúlegu frásögnum úr skýrslunni að einn og sami aðilinn, fyrirtæki Baugs, skuli hafa verið með lán hjá viðskiptabönkunum stóru sem svarar 53% af eiginfjárgrunni þeirra. Og þegar sérstaklega er skoðaður bankinn sem fyrirtækjasamsteypan réði voru þessar tölur um tveir þriðju af eiginfjárgrunninum og nær níutíu prósent þegar við er bætt lánum til nánasta viðskiptafélagans."
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook