18.4.2010 | 22:23
Vandræðagangur á heimavígstöðvunum
Afgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðun samkomulagsins við okkur, rifjar fyrst og fremst upp eitt. Það að endurskoðunin hefur tafist von úr viti. Þar er auðvitað við sjóðinn að sakast að hluta til. Sjóðurinn breytti sér í eins konar handrukkara fyrir Icesaveþjóðirnar. En hitt er ekki síður alvarlegt að allt hefur málið dregist vegna vandræðagangs hér á heimavígstöðvunum. Seinagangurinn sem einkennir allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar birtist líka í seinkunum á endurskoðun AGS samningsins.
Pólitíska óvissan sem lagðist yfir þjóðfélagið í ársbyrjun 2009 bætti gráu ofan á það svarta ástand sem var þá í efnahagsmálunum. Reynsla annarra þjóða sýndi að sú blanda er baneitruð; pólitísk óvissa og efnahagsleg vandræði.
Það hefur rækilega sannast hér. Þegar Samfylkingin gugnaði gagnvart verkefnum sínum, var mynduð ný vinstri stjórn. Síðan hefur meira og minna ríkt stjórnarkreppa. Ríkisstjórnin ræður ekki við ætlunarverk sitt. Stjórnarkreppan birtist hvenær sem taka þarf á málum. Í Icesavemálinu, ESB aðildinni, ríkisfjármálum, atvinnumálum, málefnum heimilanna........ Og þannig má endalaust áfram telja.
Þetta í bland við óforsvaranlega afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, skýrir að við erum langt á eftir upphaflegri áætlun. Batamerkin sem menn töldu fyrirsjáanleg um mitt ár, eru enn alltof fjarri.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook