14.7.2010 | 10:09
Það er brosað hringinn í Fjármálaráðuneytinu
Í Fjármálaráðuneytinu, í Arnarhváli við Arnarhól í Reykjavík, brosa þeir hringinn þessa dagana. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Indriði Þorláksson ráðgjafi hans eru tveir mestu áhugamenn um aukna skattheimtu í landinu sem fyrirfinnast í stjórnsýslunni. Þeir gleðjast nú mjög yfir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði þeim til nýjar skattahugmyndir. Ekki þar fyrir; þá kumpánana hefur svo sem aldrei skort hugmyndaauðgina þegar að sköttum kemur. Satt að segja er hugmyndum þeirra fá eða engin takmörk sett á því sviði. En þeir, líkt og hún Tóta litla tindilfætt, sem sungið er um í kvæðinu, geta alltaf á sig blómum bætt.
Skýrsla AGS um skattamál á Íslandi er brennd sama marki og allt annað sem að ríkisstjórninni snýr. Hún er leyniplagg. Fjármálaráðuneytið lekur frá sér því sem henta þykir. Af því sem þar hefur spurst út ,vekur tvennt einkum athygli.
Stórkarlalegar tillögur um skattahækkanir og ábendingar um að hér sé búið að flækja skattkerfið úr hófi.
Ríkisstjórnin mun taka mark á fyrri hlutanum; kaflanum um skattahækkanirnar. Ekkert verður hins gert með ábendingar um að snúið verði til baka á brautir einfaldara skattkerfis.
Svo blasir við að ríkisstjórnin mun beita einu af sínu þekktasta trixum og það verður gert svona.
Fyrir liggja miklar skattahækkanatillögur. Almenningur er æfur og hagsmunasamtökin gagnrýna. Þá koma ráðherrarnir,setja upp mildilega sparisvipinn og segja: Nei, svona skattahækkanir ganga ekki. Við verðum miklu hóflegri.
Svona brögðum hefur ríkisstjórnin beitt áður og þannig er forsætisráðherrann farinn að tala núna. En það sem gleymist, er ofur einfaldur sannleikur. Menn geta kannski blekkt sumt fólk, - svona stundum. En menn komast ekki upp með sömu blekkingarleikina æ ofan í æ. Menn sjá í gegn um svoleiðis bellibrögð.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook