Óvanalegt varaformannskjör

FrjálslyndiflokkurinnKastljósþátturinn í kvöld þar sem Margrét Sverrisdóttir fráfarandi frkvstj. Frjálslynda flokksins og Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður flokksins ræddust við vegna fyrirhugaðs varaformannskjörs, leiddi í ljós að pólitísk hyldýpisgjá er á milli þeirra. Þetta er líklega einsdæmi úr nýlegri fortíð stjórnmálaflokka. Þarna talaði nefnilega saman fólk sem er í innsta kjarna flokksins og málefnaágreiningurinn leyndi sér ekki.

Það er ekki óvanalegt að fólk sem býður sig fram í virðingarembætti í stjórnmálaflokkum komi saman í viðtalsþætti fjölmiðlanna. Jafnan birtist áherslumunur, en sjaldnast beinn skoðanaágreiningur. Þegar einstaklingar bjóða sig fram til forystu í stjórnmálaflokkunum,   stendur valið um persónur og kannski áherslur; kjósendur taka svo afstöðu á þeim grundvelli.

Það á ekki við í Frjálslynda flokknum að þessu sinni.

Áherslumunurinn er sannarlega til staðar. Margrét telur flokkinn einsleitan og með áherslu á fá mál og þröngt sjónarhorn. Hún  vekur athygli á því að flokkurinn höfði einkanlega til karla sem komnir eru af léttasta skeiði, eins og raunar hefur komið fram í skoðanakönnunum.

En ágreiningurinn er ekki bara um áhersluatriði eða áferð, heldur ríkir kristalklár málefnaágreiningur. Þar mætti ýmsilegt nefna.

Í umræðunni hefur ágreiningurinn um málefni innflytjenda borið hæst.  Frjálslyndir hafa kosið að fiska þar í gruggugu vatni. Þeir hafa fetað sömu slóð og flokkar í Noregi og Danmörku sem náð hafa fótfestu með neikvæðri afstöðu sinni til innflytjenda. Þar reri í fyrirrúmi Jón Magnússon lögmaður nýjasta vonarstjarna flokksins. Þingflokkurinn hefur svo siglt í kjölfarið og leggst á sveif með Magnúsi Þór gegn Margréti. Stofnandi Frjálslynda flokksins Sverrir Hermannsson kallar afstöðu Jóns og þingmannanna. Segir hana  einkennast sem sagt af kynþáttahatri.

Ágreiningurinn í varaformannskjörinu í Frjálslynda flokknum snýst því meðal annars um þetta mál. Þarna geta ekki tekist málefnalegar sættir. Menn semja ekki við þá sem þeir telja rasista. Annað hvort sigrast menn á þeim eða kjósa að eiga ekki samleið með þeim. Þarna er deilt um slíkt grundvallaratriði,  að ekki getur orðið um málamiðlun að ræða. Enda eru rasískar skoðanir tengdar einhverjum verstu hryðjuverkum 20. aldar og kúgunum þjóða og þjóðarbrota.

Það er einmitt þessi skýri málefnaágreiningur sem gerir varaformannskjörið í Frjálslynda flokknum svo sérstakt núna. Þar takast einstaklingar á, með skírskotun til snarps málefnaágreinings. Í Frjárlslynda flokknum verður því ekki einasta kosið um persónur og áherslur, heldur um afstöðu í grundvallarmálum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband