Vondur kaffiuppáhellingur

StjórnarandstaðanLítill bloggpistill dugar ekki til þess að tíunda öll ágreiningsefnin í stórmálum sem ríkir á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Þeir hafa kallað tilburði sína til samstöðu, Kaffibandalagið, með stórum staf og greini. Það er hins vegar deginum ljósara að þeir sem reyna að bergja á kaffibollanum sem hellt er upp á í því boði, fá bæði lapþunnan drykk, staðinn og vondan, enda er blandað í hann góðum skammti af ágreiningi sem ekki er skorinn við nögl í þessum uppáhellingi.

Strax sömu dagana og Kaffibandalagið var kunngert sl. haust blasti ágreiningurinn við hverjum manni. Heiftarlegar deilur og gagnkvæmar árásir Samfylkingar og Vinstri Grænna um stóriðju, sem staðið hafa yfir fram á þennan dag. Við sjáum líka að VG ætlar að velgja Samfylkingunni sérstaklega undir uggum í þessum málaflokki, með því að einn helsti forystumaður flokksins Ögmundur Jónasson fer í framboð í Kragann, til þess að geta barið á stóriðjusinnuðum Samfylkingarmönnum á þeim slóðum. Þar er af nógu að taka. Samfylkingin logar stafnana á milli í stóriðjumálum, eins og allir vita.

Skammt er og að minnast deilnanna um lækkun matarverðs nú í haust. Langt er síðan menn höfðu orðið vitni að svo níðangurslegum ummælum stjórnmálaforingja um tillögur annars stjórnmálaflokks og birtust okkur í máli Steingríms J. Sigfússonar um tillögur Samfylkingar á því málasviði. Var þó um að ræða það mál sem Samfylkingin ætlaði sér stóra hluti með í komandi kosningum.

Og muna menn hörkuna sem komu fram í ummælum talsmanna Samfylkingar og Vinstri Grænna í garð Frjálslyndra varðandi afstöðu til innflytjenda. Þar var þó stórmál á ferðinni fyrir þann stjórnmálaflokk . Þetta mál átti að vera bjarghringurinn sem flokkurinn ætlaði að krækja sér í, til þess að reyna að bjarga sér úr pólitískri hafnauð sinni, sem öllum var augljós og þeim sjálfum að sjálfsögðu langbest. Þetta mál, sem fyrir vikið verður grundvallarmál flokksins, hlaut slíka fordæmingu af hálfu Samfylkingar og Visntri grænna að eftir er tekið og augljóst að flokkarnir ætla sér ekkert svigrúm til þess að bakka.

Og nú er semsé komið eitt ágreiningsefnið enn. Deilan um forsætisráðherrastólinn sem kom fram í umræðuþættinum Kryddsíld á Stöð 2. Þar kristallaðist tortryggnin eins vel og unnt var og leyndist ekki nokkrum manni.

Þetta eru bara fern mál sem þó eru öll stórmál hvert um sig. Þarna blasir við hverjum manni ágreiningurinn sem ríkir í millum flokkanna á mikilvægum málasviðum. Snakkið um Kaffibandalagið er þess vegna ekki einasta orðið lúið, heldur bráðfyndið; eins konar pólitískt absúrdverk, fjarstæðuleikhús, sem gaman er að fylgjast með úr fjarska - en bara úr fjarska.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband