600 þúsund eða 1,4 milljónir

peningarFréttir úr viðskiptalífinu hafa verið áberandi í fjölmiðlum á árinu sem er að líða. Það er eðlilegt. Viðskipti eru orðinn stærri hluti í samfélaginu en áður. Útrásin setur mjög mikinn svip á þjóðfélagið okkar og hefur flutt hingað mikið fjármagn í formi arðs og skapað fjölmörgu fólki ný störf, ekki síst hér innanlands. Lífeyrissjóðir fjárfesta í atvinnufyrirtækjum og búa þannig til arð sem stendur undir lífeyri okkar í framtíðinni og síðast en ekki síst; tugir þúsunda Íslendinga leggja sparnað sinn að einhverju leyti í hlutabréf. Almenningur á þannig beinna hagsmuna að gæta ,auk þess sem fréttir af vendingum og breytingum í atvinnulífinu geta haft áhrif á störf fólks.

Svo er auðvitað ekki síst hitt, að það er fréttnæmt að heyra og lesa um allar þær breytingar sem gerast vikulega í viðskiptalífinu, þó við sem utan stöndum eigum fullt í fangi - og ríflega það - með að átta okkur á öllum þeim straumum og stefnum sem atvinnufyrirtækin eru að taka. Eigna og eigendabreytingar eru löngu orðnar óskiljanlegar flestu fólki og það jafnvel í fyrirtækjum sem skráð eru á markaði og þar sem þúsundir og tugþúsundir hluthafa eiga beinna hagsmuna að gæta; svo ekki sé nú talað um starfsfólkið.

En upp úr stendur að mikill gangur er í atvinnulífinu. Tölur um afkomu sýna það. Í meðförum Alþingis var tekjuáætlun fjárlaga hækkuð, meðal annars með tilliti til væntinga um hækkaðar skattgreiðslur af tekjuskatti fyrirtækja vegna batnandi afkomu.

Þátttaka í hlutabréfakaupum virðist líka almennt hafa verið arðvænleg iðja á líðandi ári. Lausleg athugun á arðsemi hlutabréfa á árinu sem er að líða og sem skráð eru í Kauphöll Íslands leiðir það í ljós að hlutabréf í fimm fyrirtækjum hafi lækkað. Hin hafi hins vegar hækkað. Taka þarf hins vegar tillit til margra þátta við slíkan samanburð, svo sem verðlagsbreytinga og vaxtakjara í innlánsstofnunum.

Engu að síður er ljóst að kaup í hlutabréfum er ekki einvörðungu hagnaður og getur aldrei orðið það. Slík fjárfesting er ætíð undirorpin óvissu og þar með áhættu. Þar getur brugðið til beggja vona. Tökum tvö dæmi:

Maður sem átti í handraðanum 1 milljón króna í upphafi árs gæti hafa  átt marga kosti til ávöxtunar. Ef hann hefði keypt hlutabréf í því fyrirtæki þar sem hlutabréfin hækkuðu mest,  ætti hann í dag um 1,4 milljónir. Ef hann hins vegar hefði fjárfest í því fyrirtæki þar sem ávöxtunin var lökust, ætti hann í dag 600 þúsund króna. Munurinn er um 800 þúsund  krónur, eða 80% þeirrar upphæðar sem hann fjárfesti fyrir í upphafi. Og ef hann hefði tekið lán fyrir helmingi upphæðarinnar, ætti hann varla fyrir skuldum í versta tilvikinu.

Þetta er hinn kaldi veruleiki. Fátt er nefnilega án áhættu. Allra síst fjárfestingar.Það mega jafnvel þeir reyna sem snjallastir eru og klárastir eru á þessum sviðum og það má sjá af fréttum ársins af fjárfestingum sem mistókust. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband