28.12.2006 | 09:03
Auknar og fjölbreyttari sjávarrannsóknir
Þó nokkuð hafi áunnist er ljóst að verulega þarf að auka fé til haf og sjávarrannsókna. Verkefnið er stórt og ærið og miklu varðar fyrir okkur að kunna svör við þeim áleitnu og erfiðu spurningum sem lífríkið í hafinu vekur stöðugt með okkur. Vísindamenn okkar vinna frábært starf og njóta góðs álits. Lykillinn að enn frekari árangri er fólginn í frekari og fjölbreyttari rannsóknum.
Þetta hafði ég í huga er ég beitti mér fyrir því að efnt var til sérstaks átaks í rannsóknum, þar sem markmiðið var í rauninni tvennt. Að stuðla að meiri og frekari hafrannsóknum og gefa vísindamönnum sem víðast að úr rannsóknarsamfélaginu tækifæri til þess að takast á við þessi verkefni.
Þess vegna var stofnað til þess sem við höfum kosið að kalla Samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Í stjórnina valdist úrvals fólk. Formaður er dr. Jakob K. Kristjánsson og með honum starfa í stjórninni þau Rannveig Björnsdóttir á Akureyri, deildarstjóri RF og Kristján Jóakimsson, framleiðslu og markaðsstjóri hjá HG í Hnífsdal
Sjóðurinn hefur lokið verkefni sínu fyrir þetta ár. Til ráðstöfunar voru 25 milljónir. Ætlunin var að sjá hver árangurinn yrði af þessu framtaki. Það er ljóst af umsóknum að ærin þörf var á þess konar sjóði. Umsóknirnar voru margar og fjölbreytilegar og voru miklar að gæðum. Það er sannarlega ánægjulegt. Við sjáum að við Íslendingar höfum á að skipa miklum fjölda frábærs vísindafólks með athyglisverðar hugmyndir á sviði sjávarrannsókna.
Þá er athyglisvert að umsækjendur koma víða að úr þjóðfélaginu. Þessi mikli fjölbreytileiki kemur enda fram í úthlutunum. Styrkirnir eru veittir til vekefna þar sem verið er að fjalla um átta mismunandi tegundir sjávarlífvera. Aðalumsækjendur sex þeirra eru staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins og í hinum eru einnig samstarfsaðilar af landsbyggðinni. Þetta sýnir að gróska er mikil og góð á sviði sjávarrannsókna utan höfuðborgarsvæðisins, gagnstætt því sem stundum er talið. Þessi sjóður ýtir undir þá starfsemi.
Ennfremur er það mjög ánægjulegt að Hafrannsóknarstofnun er samstarfsaðili í fjórum þessara verkefna, sem gerir það að verkum að úthlutun sjóðsins eflir þá þýðingarmiklu starfsemi sem fram fer innan stofnunarinnar. Jafnframt leggur stofnunin þannig sitt af mörkum til þess að efla og ýta undir rannsóknarstarfsemi utan hennar.
Loks er þess að geta að konur eru verkefnastjórar í þriðjungi þessara verkefna og sýnir að einnig á þessum sviðum hafa konur haslað sér völl og mun svo væntanlega verða enn frekar í framtíðinni.
Í heildina tekið er ljóst að sjóðurinn stuðlar að meiri og fjölbreyttari rannsóknum og vísindastarfi. Um er að ræða samkeppnissjóð þar sem krafa er gerð til að´umsækjendur leggi að minnsta kosti jafn háa upphæð á móti. Samkeppnisdeildin leysir því úr læðingi rannsóknaverkefni sem ætla má að velti amk. 50 milljónum og líklega verulega hærri upphæðum. Áhuginn og umsóknirnar sýnir að þörf er á frekara fjármagni til slíks starfs. Það er okkur hvatning til dáða.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook