Gagnstæð álit á sterkum ríkissjóði

Moody´sÞað er rétt sem segir í áliti Greiningardeildar Landsbankans, ákvörðun matsfyrirtækisins Standards & Poors ( S&P ) um að lækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir erlendar og innlendar skuldbindingar kemur nokkuð á óvart. Bæði vegna þess auðvitað að nýverið S&Phafði annað alþjóðlegt matsfyrirtæki, Moodys, kunngert allt annað mat og að staða ríkissjóðs Íslands er einkar sterk um þessar mundir.

Raunar vitnar Landsbankinn til fréttar af afstöðu Moodys, þar sem fram kemur að "meðal styrkleika telur Moody's há og jöfn lífsgæði og langvarandi pólitískan stöðugleika. Ennfremur traust ríkisfjármál, lágar opinberar skuldir og að hagkerfið byggi á sífellt breiðari grunni."

Um líkt leyti og fréttir bárust af þessum gagnstæðu álitum erlendu matsfyrirtækjanna birtust fréttir af sterkri stöðu ríkissjóðs. Hagstofan birti tölur þar sem í ljós kemur að tekjuafgangur hins opinbera á fyrstu níu mánuðum ársins nam 49,4 milljörðum, eða sem nemur 4,3% af landsframleiðslu. Þá jukust tekjur hins opinbera um rúmlega 9% frá sama tíma í fyrra og útgjöldin um 6%.

Þetta sýnir okkur gríðarlega sterka stöðu og að tekjugrunnur ríkissjóðs hefur batnað. Við erum að fá tekjur af nýjum tekjustofnum, eins og fjármagnstekjuskatti og afkoma atvinnulífsins og hækkandi laun í landinu gefa vísbendingu um vaxandi tekjur af tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga þó tekjuskattsprósentan hafi lækkað.

Það er svo athyglisvert að S&P matsfyrirtækið vísar til þess að fjárlagaafgangur hafi minnkað í meðförum Alþingis. Engu að síður er afgangur á fjárlögum um 9 milljarðar króna. Það þætti víðast hvar gott. Útgjöldin sem hækka eru á sviði velferðarmála og menntamála. En eins og menn vita hefur ríkisstjórnin fremur verið gagnrýnd fyrir að leggja ekki nægjanlegt fjármagn til þessara málaflokka, en að of ríkulega sé skammtað til þeirra.

Ennfremur er ljóst að ákvörðun okkar um að lækka matvöruverð hefur áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar mikillar umræðu um þessi mál og má segja að almenn samstaða hafi verið um þessar aðgerðir. Engu að síður hækka tekjur ríkissjóðs um rösklega 3 milljarða skv. endanlegum fjárlögum frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október sl. Þannig má segja að í meðförum Alþingis hafi komið í ljós að tekjur voru fremur vantaldar en ofmetnar.

Þá er ástæða til þess að vekja athygli á því að ákveðið hefur verið að grípa til sérstakra aðgerða til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóðin,  sem ásamt öðru styrkir mjög stoðir hagkerfis okkar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband