21.12.2006 | 12:04
Hin göfuga angan skötunnar
Hin dýrðlega tíð kæstrar skötu er að renna upp. Raunar hefur hún þegar runnið upp á mínum borðum. Í fyrradag var fyrsti í Þorláksmessu hjá mér. Þann dag var mér nefnilega boðið í fyrstu skötuveisluna á þessari vertíð.
Það var vinur minn Gunnar Jóhannsson frá Hólmavík, eigandi Drafnarinnar, sem bauð mér í dýrindis skötuveislu oní skip. Þar voru auk okkar Gunnars, bræður hans tveir, Guðmundur og Marinó, Magnús H. Magnússon Hólmvíkingur, Björn Friðrik Brynjólfsson aðstoðarmaður minn og tengdasonur Gunnars, Árni Magnússon skólastjóri og svili minn og enn einn góður vinur minn, Gunnar Þórðarson á Ísafirði. Þessi veisla fór svo fram undir styrkri stjórn Rúnars vélstjóra og snilldar skötukokks.
Framundan hjá mér eru að minnsta kosti tvær máltíðir með skötu. Ein á veitingahúsi, í hópi góðra vina og svo heljar veisla sem við Sigrún efnum til á heimili okkar með stórfjölskyldunni. Það eru vinir mínir í Bolungarvík, fiskverkendurnir Flosi Jakobsson og synir hans, sem sjá okkur fyrir skötunni, vel kæstri, gríðarlega bragðsterkri og áhrifamikilli. Og til þess að kóróna veisluhöldin, eys ég yfir dýrðina vestfirsku mörfloti. Að vísu er það sagt - og vitnað í vísindi - að mörflot sé ekki gott af heilsufarsástæðum, en ég legg ekki trúnað á svoleiðis bábiljur. Ég hef nefnilega séð fólk sem varð allra kerlinga og karla elst, úða flotinu í sig og er við hestaheilsu ! Vestfirska kæsta skötu ( og best er tindabykkjan ) ber manni að borða með mörfloti og ekkert múður.
Svo sá ég í dag, í því ágæta Fréttablaði, sagt frá skötuneyslu. Það var þó ljóður á ráði þeirrar góðu frásagnar að í fyrirsögn er sagt að fnykur sé af skötunni ! Það er ekki þannig. Af skötunni er ekki einu sinni eiginleg lykt, heldur göfug angan, sem blandast síðar meiri ilman barrjólatrésins og víkur loks fyrir góðri jólasteikarlyktinni. Þannig er skatan því, - eins og blaðið vekur svo réttilega athygli á - eiginlegur forboði jólanna. Og því má svo bæta við - afar ánægjulegur forboði.
Og svo eitt í lokin. Góðri skötumáltíð er best að ljúka með því að búa til skötustöppu að vestfirskum sið úr hnossgætinu. Þá er skatan einfaldlega stöppuð saman við mörflotið, svo úr verður hin kræsilegasta stappa, - sem pempíur kalla að vísu paté, upp á útlenskan máta, en er vitaskuld mesta rangnefni. Því skötustappa er hún og skötustappa skal hún vera.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook