Af hverju er hið voðalega Ísland svona eftirsótt?

MýrinAf hverju skyldi þeirri mynd svo oft brugðið upp hér á landi að erlendis líti menn Ísland og það sem íslenskt er neikvæðum augum. Að Ísland hafi svo neikvæða ímynd í augum alheimsins, eins og það er orðað. Og sitthvað er týnt til. Hvalveiðar, afstaða okkar til yfirþjóðlegs botnvörpubanns, útrás íslenskra fyrirtækja, ekki síst á fjármála og smásölusviði. Og síðast en ekki síst er vísað til nýtingar okkar á endurnýjanlegum orkugjöfum. Allt er þetta sagt draga upp neikvæða mynd af okkar ylhýra landi.

Og nú berast enn fleiri válegar fréttir. Í sjálfum Economist eru nú sagðar fregnir af því að okkar vinsælasti rithöfundur Arnaldur Indriðason, dragi upp svo dökka mynd af höfuðborginni að mönnum ói við. "Líklega verður þetta ferðaþjónustu í Reykjavík ekki til framdráttar", segir tímaritið. Þessar fréttir hafa nú borist hingað til lands og maður bíður ósjálfrátt kvíðinn eftir því að einhver krefjist banns á bækur Arnaldar, eða að hann hagi skrifum sínum betur með tilliti til ímyndarinnar. - Við verðum jú alltaf að fórna minni hagmunum fyrir þá sem meiri eru.

Þó skrifaði Arnaldur ekkert ljótt um Dirty Weekend, eða neitt af því sem við höfum varið miklum fjármunum í að markaðssetja á erlendri grundu. Sú fjárfesting stendur því óhögguð.

En er þetta svo? Eru viðskiptavinir íslenskra fyrirtækja að forðast áhersluna á Ísland?

Vart líður sú vika að ekki berist áskoranir stórra viðskiptavina okkar um að uppruni íslenska fisksins sé sérgreindur betur en núna. Menn vilja fá það staðfest að um sé að ræða vöru sem á uppruna af íslensku hafsvæði, sé veidd innan íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins, unnin í íslenskum fiskvinnslustöðvum, skv. okkar gæðastöðlum og hafi til að bera þann rekjanleika sem mikilvægur er talinn.

Nýjasta dæmið um álitið sem íslenskur fiskur nýtur birtist á heimasíðu Fiskistofu og einnig heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Eins og hér var bloggað um í gær sækja útlendingar Ísland heim sem aldrei fyrr. Það er örugglega vegna áhugans á landinu og þjóðinni, náttúrufars okkar, sögu og þeirrar afþreyingar sem ferðaþjónustan hefur byggt upp.

Við vitum vel að mörgum hugnast hvalveiðar illa, setja fyrirvara við útrás íslenskra fyrirtækja, kunna ekki að meta virkjanir okkar. Og kannski á sviðakjammaát Erlendar lögreglumanns í kvikmynd Arnaldar og Baltasars Kormáks, Mýrinni, eftir að draga upp lakari ímynd af Íslendingum en áður; þetta er amk. ekki ímynd "gourmet" Íslands - hins nútímalega Íslands.

En við bönnum ekki Arnaldi að skrifa, né Baltasar að taka bíómyndir, eða íslenskum athafnamönnum að hasla sér völl. Af því einfaldlega að við erum hér ekki með Löggildingarstofu sem löggildir og faggildir atvinnugreinar, listgreinar, ímynd og smekk. Það er fjölbreytileikinn sem blífur.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband