Innrás ferðamanna og útrás tónlistarfólks

VetrartíðÞað gleður hjarta gamals formanns Ferðamálaráðs að sjá fréttir af heimasíðu Ferðmálastofu um fjölgun ferðamanna hingað til lands. Ef skoðaðar eru tölur fyrir fyrstu 11 mánuði ársins þá nemur fjölgunin 9,4% og aukningin ein, sem er 32 þúsund farþegar, er samsvarandi komum allra ferðamanna hingað til lands í maímánuði. Þetta eru sannarlega uppörvandi tölur.

Og ef við skoðum allra nýjustu tölurnar þá eru þær ennþá meira sláandi. Í vetur hefur mikil aukning ferðamanna orðið milli ára. Þannig var fjölgunin í október 18,6% og fjölgunin 36,4% í nóvember m.v sömu mánuði í fyrra.

Þetta sýnir okkur góðan og mikinn vöxt íslenskrar ferðaþjónustu. 36,4% fjölgun er ævintýralega góður árangur þó að við vitum að einn mánuður er ekki nægjanlegur sem mælikvarði einn og sér á árangur. Það sem er sérlega athyglisvert er að aukningin er svo mikil að vetrarlagi. Einmitt á því tímabili ársins sem við vildum gjarnan sjá aukningu. Þetta þýðir nefnilega lengingu ferðamannatímabilsins og bætta nýtingu á fjárfestingum í farartækjum, hótelum, veitingahúsum og afþreyingu.

Á heimasíðu Ferðamálastofu svarar Ársæll Harðarson  forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu  því hver sé ástæða þessarar aukningar. Hann segir: “Í fyrsta lagi er frekar lítið um að erlendir starfsmenn séu farnir til síns heima á ný, og okkar talning er brottfarartalning sem fer fram við brottför í Keflavík. Í öðru lagi er vitað um þó nokkurn fjölda erlendra starfsmanna sem hafa farið í frí til síns heima undanfarið og hafa þeir flestir farið beint frá Egilsstöðum í flugi, en brottfarartalningin nær ekki yfir aðra flugvelli en í Keflavík. En auðvitað eru einhverjir erlendir verkamenn í tölunum, þó þeir skipti ekki þúsundum."

Þessu til viðbótar er einnig gaman að geta þess að útrásarstefna okkar á sviði afþreyingar og tónlistar ber mikinn ávöxt þessa dagana. Við þekkjum frægðarferðir margra góðra tónlistarmanna. Björk og SigurRós koma vitaskuld fyrst upp í hugann. Og yngri og nýrri tónlistarmenn eru farnir að láta að sér kveða úti í hinum stóra heimi. Má nefna hljómsveitina BangGang sem er að gera athyglisverða hluti í Bandaríkjunum og má lesa um á heimasíðu hljómsveitarinnar.

Og síðast en ekki síst er ástæða til að vekja athygli á þeirri athyglisverðu staðreynd að sjálft Latabæjarlagið er nú komið í 4. sæti breska vinsældarlistans. Þetta er góður árangur og í takt við vaxandi sölu íslenskrar tónlistar.

Þetta eru allt dæmi um framtak fólks sem hefur Ísland í farteskinu og haslar sér völl á erlendri grundu á vettvangi þar sem samkeppni er hörð og mikil. Þetta er ánægjulegur árangur á sviðum sem eru að verða enn meira gildandi um allan heim og marka núna mikil spor í íslenskt atvinnulíf og samfélag.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband