Þetta voru tímar lífsháskans

Óvinir ríkisinsTvisvar hef ég rætt hleranir á umliðnum vikum. Fyrst á opnum hádegisfundi stjórnmálafræðiskorar H.Í. og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála miðvikudaginn 6. desember í tilefni af útkomu bókar Guðna Th. Jóhannessonar Óvinir ríkisins. Síðan á Alþingi tveimur dögum síðar í utandagskrárumræðu sem Ingibjörg Sólrún efndi til. Fernt stendur upp úr eftir þessar umræður.

Í fyrsta lagi. Þær hleranir sem efnt var til á umræddu tímabili - kaldastríðstímanum - voru takmarkaðar við ákveðin tilvik, svo sem þegar við gengum í NATO, við komu bandaríska varnarliðsins og heimsókn varaforseta Bandaríkjanna og fleiri atburði, svo sem Guðni rekur í bók sinni ( sjá td. bls 349). Þetta voru ekki samfelldar hleranir - njósnir - eins og reynt hefur verið að halda fram; og alltaf að undangengnum dómsúrskurði.

Í annan stað. Sú öryggisþjónusta sem hér starfaði var mjög smá í sniðum og vanmáttug. Hér var alls ekki um að ræða leyniþjónustu, hvað þá leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins, eins og reynt hefur verið að ljúga upp. Þetta rekur Guðni til dæmis afskaplega vel í bók sinni. Viðbúnaður lögreglu var einnig lítill á þessum tíma og augljóst að löggæslan réði illa við hinn minnsta samblástur.

Í þriðja lagi. Það ríktu raunverulegar áhyggjur af hugsanlegu ofbeldi og spellvirkjum. Þetta kemur til dæmis fram í orðum Kristjáns Eldjárns þáv. forseta Íslands og Einars Ágústssonar utanríkisráðherra, sbr bls. 311 - 312 í bók Guðna. Seint verða þessir menn þó sakaðir um pólitíska vænisýki.

Loks liggur fyrir að Sjálfstæðismenn vilja varpa sem mestu og skýrustu ljósi á þetta tímabil. Þetta áréttaði ég í ræðu minni á Alþingi jafnt og á fundinum í háskólanum. Þetta hefur ítrekað komið fram í máli Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og fleiri forystumanna flokksins.

Þetta voru merkilegir átakatímar sem verðskulda rannsóknir og skoðun. Undir forystu ríkisstjórnarinnar og í góðri sátt við stjórnarandstöðuna hafa verið lögð mikilvæg drög að slíku. Meðal annars með samþykktum Alþingis og lagabreytingum. "Þetta voru tímar lífsháskans", segir Matthías Johannessen fyrrv. ritstjóri Mogunblaðsins og má glöggt vita. "Það var ekkert dútl eins og í dag, pólitískt dútl, þverpólitískt dútl. Það var allt upp á líf og dauða" ( sbr bls 27 - 28).

Nú liggja fyrir margvíslegar rannsóknir á þessu tímabili. Þar má nefna ritverk manna eins og Þórs Whitehead, Vals Ingimundarsonar, Guðna Th. Jóhannessonar og ýmissa fleiri. Við höfum því forsendur til efnislegra og málefnalegra umræðna. Því miður hefur umræðan verið of slagorðakennd upp á síðkastið og alls ekki dregið dám af þeim ágætu rannsóknum sem þegar liggja fyrir. Utandagskrárumræðan var einmitt dæmi um þetta. Þessir merkilegu tímar verðskulda annars konar umfjöllun.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband