Er skákin íþrótt eða list?

Fyrsti leikurinnHvort er skákin íþrótt eða list? Við tölum um skákíþrótt en einnig um skáklistina. Svarið er þess vegna þetta: skákin er hvoru tveggja; list og íþrótt. Skákin er keppni þar etja menn kappi. Hún byggir á gríðarlegri þjálfun, úthaldi og einbeitni. Hún er sannarlega hugaríþrótt og því íþrótt í þeim skilningi. En hún hefur einnig öll einkenni listarinnar, einbeitning, hæfileiki, að sjá yfir sviðið, rökhyggja í bland við frjóa hugsun. Þannig er hún list hugans.

Þegar ég fékk það hlutverk að setja Óttósmótið í Snæfellsbæ sl. laugardag, á 51 árs afmælisdaginn minn, var ég upptekinn við þessar hugsanir. Eftir að hafa ávarpað mótsgesti og keppendur var mér falið að leika fyrsta leiknum, fyrir stórmeistarann Helga Ólafsson og þar með hófst mótið.

Skáklistin stendur með miklum blóma í Snæfellsbæ. Menn koma saman vikulega til að tefla og þar er harðsnúin skáksveit. Það er dálítið merkilegt að skák virðist oft vinsæl í sjávarútvegsplássunum. Heima hjá mér í Bolungarvík var til dæmis mikið skáklíf og þeir höfðu það einmitt á orði við margir skákmennirnir sem mættir voru í Félagsheimilið í Ólafsvík. Ég velti vöngum yfir þessu í ávarpinu. Það var tilvalið að tefla í landlegum. Sjómenn hittu við skákborðið félaga sína og aðra íbúa byggðar sinnar. Þarna var því kjörinn vettvangur.

Ég veit það af reynslu að það er ekki áhlaupsverk að efna til annars eins viðburðar og Ottósmótið í skák er. Tryggvi L. Óttarsson fer þar fyrir harðsnúnum hópi sem skipuleggur mótið og stendur fyrir höfðinglegum móttökum. Þarna voru ríflega 80 skákmenn mættir til leiks á öllum aldri. Ungir og áhugasamir skákmenn fá tækifæri til þess að tefla við harðsnúna jaxla og stórmeistara og breiddin er því mikil. Skákin virðir heldur engin landamæri af nokkru tagi. Við skákborð mætast menn af öllum landshornum, fólk sem starfar í fjölmörgum starfsstéttum og á öllum aldri. Þess vegna er skákin svo einstök íþrótt - og list.

Það er sérstaklega gaman að sjá hversu skákin er að ryðja sér til rúms sem vettvangur fólks sem iðkar íþróttina af bestu list (og kannski lyst líka) Það hefur í rauninni orðið vakning. Þar eiga margir hlut að máli. Áhugamenn á borð við þá Snæfellingana sem standa fyrir skákstarfsemi í byggðum sínum. Kröftugir hugsjónamenn fullir eldmóði og þar kemur nafn Hrafns Jökulssonar vitaskuld fyrst upp í hugann. Verk hans verður til mjög margra fiska metið. Og svo eru það skákmeistararnir sjálfir sem eru fyrirmyndir. Og leyfist mér að nefna sjálfan forseta Skáksambandsins hana Guðfríði Lilju, sem ég átti því láni að fagna að vinna með í þinginu, en þangað stefnir hún nú ótrauð til þingsetu á vettvangi Vinstri Grænna.

Þetta var eftirminnilegur dagur. Gott upphaf á afmælisdegi og gaman og heiður að fá að setja mótið og leika fyrsta leikinn fyrir sjálfan stórmeistarann.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband