6.12.2006 | 08:55
Leitað að betri yfirlesara
Það var alls ekki fallegt að hlægja að ræðu formanns Samfylkingarinnar sem nú er farið að kenna við Keflavík og var flutt þar sl. laugardag. Þar sagði formaðurinn, sem frægt er orðið: "Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum - ekki ennþá, ekki hingað til"
Á Alþingi hentu menn þetta á lofti og það verður auðvitað að segja að sú umræða skýrði málið lítt eða ekkert. Jók fremur ruglandina, þrátt fyrir virðingarverðar tilraunir fjögurra þingmanna flokksins til þess að skýra málið. En það var nefnilega vandinn í hnotskurn. Jafnvel þó maður reyndi að halda niðri í sér hlátrinum, þá bara tókst það ekki. Það var þó ekki þar fyrir að ætlun þingmannanna hafi verið að reyna að vera fyndnir. Það má trúa því. Samfylkingarþingmönnunum var allt annað en hlátur í huga. Jóhann Ársælsson, Mörður Árnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir töluðu öll af mikilli alvöru um málið
En þau voru bara svo óskaplega hlægileg. Og þess vegna hló þingheimur. Ég get fullvisað lesara þessarar síðu að ég reyndi að halda alvörusvipnum, en ég bara náði því ekki.
Þórunn gerði ekki einu sinni tilraun til að skýra ummæli formannsins. Jóhann sagði að sér hefði brugðið illilega þegar hann heyrði þau sögð á flokksfundinum í Keflavík, en á honum mátti skilja að heldur væri hann nú að jafna sig. En verst lét þó Mörður. Hann sagði það brýnna að ræða örlög fuglanna í Húsdýragarðinum, en þetta mikla erindi flokksformanns síns. Já, það er rétt. Hann getur verið nöturlegur hann Mörður, þegar hann kærir sig um. - Það er mikilvægara að ræða um landnámshænur í garði einum í Reykjavík, en þau skilaboð flokksformanns hans sem mesta athygli hafa vakið, sagði hann sumsé.
En auðvitað var formaðurinn bara að skýra frá staðreyndum og við áttum þess vegna ekki að hlægja. Skoðanakannanir sýna að einungis 15% þjóðarinnar vilja ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna. Það er alvara málsins og vitaskuld grafalvarlegt fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn
Annars er það dálítið sérstakt þegar máflutningur stjórnmálaleiðtoga er þannig að menn telji sig þurfa að skýra hann sérstaklega. Að textinn standi ekki sem sjálfstætt verk - svo ég ekki segi bókmenntaverk.
En þarna er ekki mikillar skýringar að leita. Þingflokksformaðurinn Össur Skarphéðinsson, talar tvírætt á síðu sinni og til skilnings á skrifum hans þarf bæði kunnáttu í fiskifræðum og kínverskri stjórnmálasögu og gott ef ekki djúpsálarfræði ( ef hún er þá yfirhöfuð til sú grein) , enda segir hann: " Í Gjálfri Egils á morgun þarf ég að mæta og útskýra orð formannsins. Sjú-En-laí var alltaf fenginn ef þurfti að skýra meininguna í orðum Maós formanns. Ég er náttúrlega einsog fiskur í því vatni. Við Ingibjörg vitum yfirleitt hvað hitt hugsar áður en það er komið á form orða".
Og ekki er Mörður betri, sem segir á sinni síðu: "Vel má vera að formaðurinn minn þurfi að fá sér betri yfirlesara áður en hún gengur frá erindum sínum og ávörpum".
Þannig skrifa þeir félagarnir um formann sinn. Það var því ekki að undra að þingheimur hafi hlegið.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook