29.11.2006 | 23:24
Langa nefið Samfylkingarinnar
Af hverju ætli Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og Anna Kristín Gunnarsdóttir Skagfirðingur og þingmaður flokksins í NV kjördæmi hafi lagt leið sína á baráttufund í Skagafirði sem hafði það að yfirskrift að mótmæla hugmyndum um virkjun jökulsánna í Skagafirði? Svarið er einfalt. Þær vildu sýna flokksfélögum sínum það svo eftir væri tekið, að flokkurinn væri ósammála Skagafjarðarsellu Samfylkingarinnar hvað málefnið varðar.
Þannig er nefnilega mál með vexti að skagfirskt Samfylkingarfólk vill að gert sé ráð fyrir virkjun Villinganesvirkjunar og Skatastaðavirkjunar í aðalskipulagi Skagafjarðar. Í margumtalaðri stefnumótun flokksins á landsvísu, Fagra Ísland, er sérstaklega kveðið á um andstöðu við áform um virkjun jökulsánna í Skagafirði. Þarna er því á ferðinni, afar magnaður pólitískur ágreiningur innan flokksins. Sami ágreiningur og er á milli forystunnar annars vegar og flokksmanna á Akranesi, Austurlandi, Þingeyjarsýslu og Suðurnesjum hins vegar um virkjana og stóriðjumál. Flokksfólkið í þessum héruðum vill að virkjað sé til nota í stóriðjuuppbyggingu. Því er forystan ósammála og hefur bréfað það sérstaklega í stefnumótun sinni.
Ferð flokksformannsins norður í Skagafjörð og fram í Lýtingsstaðahrepp með þingmanni flokksins í héraðinu var þess vegna gerð til þess að senda flokksmönnum skilaboð. Þau eru þessi: Sama hvað þið segið, flokkurinn situr við sinn keip. Við erum á móti virkjununum. - Þarna eru engar tilviljanir. Ferðin á fundin er augljóslega meðvituð aðgerð, sem fól í sér skýrar pólitískar merkjasendingar, sem enginn átti að geta misskilið.
Afstaða forystunnar er algjörlega afdráttarlaus og heimsóknin norður var til að undirstrika það. Flokksforystunni í héraðinu er ekki ætlað að velkjast í vafa. Henni er einfaldlega gefið langt nef svo eftir er tekið.
Þetta er athyglisvert. Forysta Samfylkingarinnar á sveitarstjórnarstiginu í Skagafirði vill nefnilega ganga jafn langt og þeir sem lengst vilja ganga í virkjunum. Sjálfstæðismenn hafa lýst yfir vilja til að önnur virkjunin, Skatastaðavirkjun sé á aðalskipulaginu, en ekki Villinganesvirkjun. Þessari afstöðu hafa sveitarstjórnarmenn okkar fyrr og nú lýst vel í ræðu og riti. Skatastaðavirkjun er sú virkjun sem einhver veigur er í til orkuöflunar. Lítið munar um Villinganesvirkjun til þess brúks en ljóst að virkjunarréttur gæfi þeim sem hann fengi góða stöðu til frekari virkjana. Undir því merki gengur Samfylkingin í Skagafirði ásamt Framsóknarflokknum.
Í vandræðum sínum, hefur Samfylkingarfólkið reynt að halda því fram, að fyrir þeim vaki það eitt að setja tillögu um umræddar tvær virkjanir inn á aðalskipulag. Ekki sé um að ræða efnislega afstöðu til málsins. Þessu er að vísu fyrst og fremst haldið á lofti út á við í fjölmiðlum, en síður norður í Skagafirði og því fyrst og fremst ætlað til útskýringar fyrir flokksforystuna. En á fundinum sem forystufólk Samfylkingarinnar sótti frammi í Lýtingsstaðahreppi, var sérstaklega vikið að þessu með því að hafna því skýrt að virkjanirnar væru settar á aðalskipulag. Tillögu fundarins var því augljóslega sérstaklega beint gegn málflutningi Samfylkingarinnar. Ekki fer nokkrum sögum af andófi Ingibjargar Sólrúnar og Önnu Kristínar gegn þessari niðurstöðu fundarins. Það er sannarlega athyglisvert.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook