Seinheppni þingmaðurinn

Vegagerð í ÍsafjarðardjúpiÞriðjudagurinn 28. nóvember reyndist ekki vera dagurinn hennar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur alþm. Samfylkingarinnar í NV kjördæmi. Hún hóf upp raust sína í morgunútvarpi RÚV í morgun og hafði mörg orð um vesældóm í vegamálum á Vestfjörðum; taldi bersýnilega fátt hafa verið gert og lítils að vænta í framtíðinni. En þingmaðurinn var einstaklega seinheppin. Sem væntanlega stafar af því að hún fylgist lítt með því sem er að gerast í vegamálum á Vestfjörðum. Ella hefði hún væntanlega hagað orðum sínum öðruvísi.

Fáeinum klukkustundum eftir að boðskapur þingmannsins var sendur út til okkar útvarpshlustenda, safnaðist nefnilega saman hópur verktaka og fulltrúar Vegagerðarinnar til þess að opna tilboð í stórframkvæmd í Gufudalssveit sem auglýst hafði verið fyrr í haust. Þetta er hluti af þeirri miklu framkvæmd sem er þar með komin á fulla ferð við tengingu byggðanna í Vestur Barðastrandarsýslu við aðalþjóðvegakerfi landsins. Þessi áfangi er að kostnaðarmati um 244 milljónir króna, en ágætir verktakar úr Norðvesturkjördæmi. KNH verktakar buðu lægst, 178 milljónir króna, sem er um 73% verkkostnaðar.

Senn má vænta úrskurðar umhverfisráðherra um vegastæði frá Skálanesi að Þorskafirði og þá verður hægt að byrja nauðsynlegan undirbúning að útboðum þessa verks.

Eftir hálfan mánuð verða tilboð opnuð í ennþá stærra verk, þar sem um er að ræða þverun Mjóafjarðar og Reykjafjarðar í Ísafjarðardjúpi, og aðliggjandi vegi. Þetta er örugglega eitt allra stærsta vegagerðarverkefni sem unnið verður á næstu árum og við lok þess sér fyrir lyktir vegatengingar í Ísafjarðardjúpi. Þessum framkvæmdum á að ljúka fyrir 1. nóvember árið 2008.

Vegurinn um Arnkötludal verður síðan boðinn út í byrjun næsta árs og verður lokið við hann fyrir árslok 2008.

Innan skamms munu liggja fyrir tillögur um Bolungarvíkurjarðgöng, en eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin það fyrir ári að setja til hliðar sérstakt fjármagn til þeirrar brýnu framkvæmdar.

Það er því óhætt að segja að Anna Kristín hafi ekki verið ýkja lánsöm þegar hún hugðist koma höggi á okkur stjórnarliða og samgönguráðherra fyrir meintan aumingjaskap í vegamálum á Vestfjörðum. En vilji hún nýta krafta sína með jákvæðum hætti mætti benda henni á að ræða aðeins við þá flokksfélaga sína sem sí og æ reka hornin í framkvæmdir á landsbyggðinni. Og mikið væri gaman að vera viðstaddur þegar hún útskýrir draumsýn sína um fjölda jarðganga til þess að tryggja vegalagningu á láglendi fyrir félögum sínum í Samfylkingunni. Manni hefur ekki sýnst hingað til að slíkar framkvæmdir væru ofarlega á óskalistum flokkssystkina hennar á höfuðborgarsvæðinu.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband