Athyglisverð þverpólitísk lýsing á íslensku þjóðfélagi

Nefnd um lagalega umgjörð stjórnmálaflokkanna kynnir niðurstöðu sínaÞær breytingar sem hafa orðið á þjóðfélagi okkar eru stórstígar og að lang flestu leyti til góðs. Langt er síðan ég hef þó lesið jafn greinargóða og knappa lýsingu á þessum breytingum og gat að líta í skýrslu nefndar um lagalega umgjörð stjórnmálaflokkanna. Það gefur þessari lýsingu sérstakt vægi, að höfundar skýrslunnar eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi.

Í skýrslunni segir orðrétt:

"Þær breytingar sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum áratugum hafa dregið stórlega úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi. Viðskiptalífið hefur verið leyst úr viðjum leyfisveitinga og úthlutunarkerfa sem buðu heim óeðlilegum þrýstingi á stjórnmálamenn um úthlutun takmarkaðra gæða og býr í dag við lagaumhverfi sem er sambærilegt við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrár og tilkoma stjórnsýslulaga og upplýsingalaga hefur stuðlað að meiri virðingu fyrir jafnræði borgaranna og auknu gagnsæi um forsendur stjórnsýsluákvarðana. Af öllu þessu leiðir að stjórnmálamenn hafa færri tækifæri til að beita áhrifum sínum til að mismuna fólki eða fyrirtækjum og því ætti væntanlega að vera minni hvati fyrir hagsmunaaðila að reyna að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir stjórnmálamanna".

Þetta eru stórmerk skrif sem ástæða er til að vekja athygli á og undirstrika. Þau eru einstaklega lýsandi fyrir þær jákvæðu grundvallarbreytingar sem við höfum gert á íslensku þjóðfélagi. Þetta er lýsing á jákvæðri þróun frá gamaldags íhlutunarþjóðfélagi og að samfélagi almennra leikreglna. Þessar lýsingar á því hvernig viðskitpalífið er ekki á klafa úthlutana og póitískra inngripa, rifjar upp hvernig þessi breyting gekk fyrir sig. Hún gerðist ekki fyrirhafnarlaust. Hún kostaði átök gegn þeim þjóðfélagsöflum sem vildu festa okkur í niðurnjörvaða fortíð þar sem ekki var horft til þeirrar framtíðar sem nú er orðin að veruleika dagsins.

Þess vegna er svo gaman að lesa þessi athyglisverðu skrif sem setta eru á blað af fulltrúum allra stjórnmálaflokka í landinu. Þau staðfesta í raun að það sem var bullandi ágreiningur um á stjórnmálavettvangnum fyrir örskömmu síðar, er nú orðinn viðtekinn sannleikur og nýtur stuðnings þvert á flokksbönd. Í rauninni eru þetta all veruleg pólitísk tíðindi. Höfundar ívitnaðra skrifa verðskulda að þeirra sé getið hér á síðunni og skal það nú gert:

Sigurður Eyþórsson, Framsóknarflokki

Kjartan Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki

Margrét S. Björnsdóttir, Samfylkingu

Gunnar Ragnars, Sjálfstæðisflokki

Gunnar Svavarsson, Samfylkingu

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki

Kristin Halldórsdóttir, Vinstri Grænum

Helgi S. Guðmundsson, Framsóknarflokki,

Eyjólfur Ármannsson, Frjálslynda flokknum.

 

Og ritari þessa hóps var svo Árni Páll Árnason, frambjóðandi hjá Samfylkingunni.

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband