Fóður efnahagsspennunnar minnkar

reykjavik[1]Tvær stuttar fréttir úr efnahagslífinu sem birst hafa síðustu dægrin segja mikla sögu um stöðu mála. Í hinni fyrri var frá því greint að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu væri nú tekið að lækka. Þetta eru mikil tíðindi. Undanfarið hefur húsnæði nefnilega hækkað í verði um marga tugi prósenta á ári. Væntingarnar sem þessar hækkanir sköpuðu hleypti fólki kapp í kinn og varð eins konar driffjöður að gríðarlegri einkaneyslu. Þegar eignamyndunin jókst í formi hækkana á húsnæði skapaðist svigrúm til lántöku. Þess vegna hækkuðu lán einstaklinga, drifin áfram af gríðarlegu fjármagni sem bankar sóttu til útlanda og Íbúðalánasjóður sótti í krafti ríkisábyrgða sinna.

Það var eins og menn tryðu því að svona gengi þetta endalaust. En nú er sagan öll - í bili að minnsta kosti. Eignirnar eru teknar að rýrna, eftir bóluna sem verðhækkun síðustu mánaða hefur verið.

Á sama tíma berast fréttir af stórhækkun byggingakostnaðar. Þeirri hækkun verður nú ekki lengur velt út í verðlagið. Framlegðin sem menn áður nutu við byggingariðnaðinn dregst saman. Markaðurinn sendir sín skýru boð og áhuginn á að framleiða húsnæði minnkar. Þannig dragast seglin saman.

Við erum þó fjarri allri kreppu eða samdrætti. En þetta eru skýrar vísbendingar um minnkandi þenslu og augljóst að á þessu mikilvæga sviði stefnir nú til jafnvægis. Það er afskaplega mikilvægt. Við þurfum á því að halda að þetta mikla fóður spennunnar í efnahagslífinu sem byggingaþenslan var, dragist nú heldur saman. Spennan er því greinilega í rénun eins og Greiningardeild Landsbankans bendir á í dag. "Það virðist því vera að draga úr þeirri umframeftirspurn sem einkennt hefur fasteignamarkaðinn undanfarin misseri", segir í skrifum deildarinnar í dag. Það eru orð að sönnu og raunverulegt fagnaðarefni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband