Kemur-mér-ekki-við-pólitíkin

AtkvæðagreiðslaÞað er hárrétt sem Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður (mig minnir raunar að hún vilji láta kalla sig alþingiskonu) bendir á í grein í Blaðinu í dag. Stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til þess að víkja sér undan afstöðu í stórum málum vegna þess að kjósendur eigi að gera upp þessi mál í almennri atkvæðagreiðslu.

Þetta er ekki sagt af tilefnislausu. Í Fréttablaðinu um daginn var viðtal við frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi - Kraganum - þar sem þeir voru spurðir um afstöðu sína til stækkunar Ísalverksmiðjunnar í Hafnarfirði. Ótrúlega margir sögðu pass. Gefum ekki upp afstöðu. Fólkið í Hafnarfirði á að útkljá þetta í atkvæðagreiðslu.

Þarna kristallast einmitt háski þjóðaratkvæðagreiðslna, sem ég hef áður bent á og er vel þekktur. Stjórnmálamenn sem eru hræddir við að tjá afstöðu sína vísa óþægilegum ákvörðunum frá sér og inn í þjóðaratkvæði og almennar atkvæðagreiðslur. Kemur -mér- ekki- við -pólitíkin. Og hverjar verða afleiðingarnar?

Skil í stjórnmálum verða óljósari. Kjósendur eiga erfiðara með að gera sér grein fyrir hver afstaða flokka og frambjóðenda er. Línurnar verða óskýrari og kostirnir liggja ekki eins beint við þegar fólk þarf að gera upp hug sinn í kosningum. Með öðrum orðum. Þótt þjóðaratkvæðagreiðslur og almennar atkvæðagreiðslur sé vel meintar og hafi lýðræðisviljann að vopni, geta þær leitt fram algjöra andhverfu lýðræðisins.

Við þekkjum dæmi af þessu úti í hinum stóra heimi. Það eru víti sem við eigum að varast. Stjórnmálamenn eiga að hafa skoðun og móta sér afstöðu. Þingmannsefni í Suðvesturkjördæmi geta ekki leyft sér að sneiða hjá máli eins og álversframkvæmd í kjördæminu; jafnvel þó að um þau verði greidd atkvæði í héraði. Eða dettur einhverjum í hug að þingmenn eða sveitarstjórnarmenn hafi raunverulega ekki skoðun á stórum málum af þessu tagi?

Hugmyndir um almenna atkvæðagreiðslur um einstök mál eru oft ræddar. Þær geta átt vel við í tilteknum tilvikum. En við megum ekki gera þær að meginreglu. Þá er nefnilega hætt við að tilvikunum fjölgi sem Þórunn Sveinbjarnardóttir bendir á í grein sinni í dag og skoðanalaust fólk fylli bekki þings og sveitarstjórna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband