Nýtt upphaf á sunnanverðum Vestfjörðum

PatreksfjörðurMenntun er algjört grundvallaratriði í nútíma samfélagi. Hreinn lykill að framtíðinni. Samfélagið verður stöðugt flóknara og krefst æ meiri sérþekkingar. Án hennar dragast menn aftur úr. Menntunin er afl nýrra hugmynda og raunar sjálfsagður þáttur í samfélagi okkar.

Menntunarstigið hækkar líka ár frá ári. Einu sinni var gagnfræðaprófið mikilvægt markmið ungs fólks, með framhaldsskólabyltingunni opnuðust nýjar leiðir. En þessu var misskipt. Aðgengið hefur ekki verið nægjanlega gott alls staðar, þó vissulega hafi gríðarlega margt verið gert til þess að auka það. Opnun nýrra framhaldsskóla víða um land og auknar fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar eru dæmi um að samfélagið hefur góðan skilning á því að ungu fólki sé gefinn kostur á því að njóta þess námsframboðs sem framhaldsskólanámið felur í sér.

Nýjasta dæmið er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, að leggja til við Alþingi að leggja fram fjármuni svo að unnt verði að opna framhaldsskóladeild  í Vestur Barðastrandasýslu í tengslum við Fjölbrautarskóla Snæfellinga, Grundarfirði. Verður  deildin staðsett á Patreksfirði. Þetta er hrein bylting.

Tölur sýna að ríflega 40 prósent nemenda í árgangi á sunnanverðum Vestfjörðum ljúka ekki námi í framhaldsskólum. Þetta er langt umfram meðaltal í landinu öllu og allsendis óviðunandi. Fyrir vikið  stendur ungt fólk á svæðinu höllum fæti þegar út í lífið kemur þar sem náms og skipulagðrar þekkingar er krafist.

Þess vegna var svo brýnt að auka námsframboðið á sunnanverðum Vestfjörðum. Allir geta sett sig í þau spor að þurfa að senda börn sín burtu um langan veg til náms, 16 ára gömul. Þessu fylgir gríðarlegt álag á fjölskyldur, auk þess fjárhagslega kostnaðar sem fylgir því. Álag á 16 ára ungmenni sem fer að heiman svo ungt er líka mikið. Allt þetta gerir það að verkum að við eigum að nefna það óviðunandi ástand og breyta því.

Heimamenn lögðu líka á þetta höfuðáherslu og undirbjuggu málið fel. Það var lykillinn að árangri sem nú er að líta dagsins ljós.

Enginn vafi er á því að ákvörðun ríkisstjórnarinnar  um uppbyggingu framhaldsskólanáms á Patreksfirði  mun breyta gríðarlega miklu og njóta almenns stuðnings. Áhrifin á samfélagið verða líka strax skýr. Árgangar ungs fólks sem áður fóru burtu munu setja svip sinn á Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Fólk sem ekki hefur notið framhaldsskólamenntunar mun nýta sér hið nýja námsframboð. Þannig verður samfélagið fjölþættara, sterkara - og það sem einnig skiptir máli - skemmtilegra. Ákvörðunin á dögunum var hárrétt og hún var þýðingarmikil.

Upphaf nýs skólaárs á komandi hausti verður merkisdagur í Vestur Barðastrandasýslu og markar nýtt upphaf. Hamingjuóskir fylgja hinni nýju skólastarfsemi á Patreksfirði í þágu íbúa Vestur Barðastrandasýslu.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband