26.10.2006 | 22:10
Hér eru árslaunin best
Lífskjör á Íslandi hafa vaxið mjög mikið á undanförnum árum. Mikill hagvöxtur, nýjar atvinnugreinar og fleiri atvinnutækifæri eru einkennandi fyrir hið gróandi atvinnulíf okkar. Stærri hluti fólks er úti á vinnumarkaðnum en í öðrum löndum. Það bættust við 11 þúsund manns á vinnumarkaðinn á síðasta ári. Margir hinna nýju starfsmanna komu frá útlöndum. Lögðu sitt af mörkunum til þess að auka framleiðsluverðmætin og búa til nýjar stoðir undir atvinnulíf okkar.
Þátttaka útlendinga í atvinnulífi okkar fer vaxandi. Fyrir löngu eru útlendingar orðnir mjög stór hluti vinnuafls í sjávarútvegi. Undanfarið hafa þeir haslað sér mjög völl í mannvirkjagerð af margs konar tagi. Þeir verða æ fleiri í umönnunarstörfum og þjónustustörfum, svo dæmi séu tekin.
Það er í rauninni ekki að undra að útlendingar sæki hingað til starfa. Lífskjör eru góð, atvinnuframboð mikið. Nú eru níu þúsund útlendingar starfandi hér á landi, skv. nýrri Haustskýrslu ASÍ í efnahagsmálum.
Atvinnuleysi er hins vegar viðvarandi vandamál víða í útlöndum og sums staðar gríðarlegt vandamál. Ekki bara í þróunarríkjum heldur líka í þróuðum hagkerfum. Ósveigjanlegur vinnumarkaður á sinn þátt í því. Frakkland og Þýskaland engjast til dæmis undir svo skorðuðum vinnumarkaði að vinnuveitendur þora tæpast að bæta við sig starfsfólki.
En ASÍ bendir líka á afskaplega merkilegan hlut í nýrri hagspá sinni. Lífskjör eru hér á Íslandi með því allra besta sem sögur kunna frá að greina í samanburðarlöndum. Árslaun í einstökum greinum eru ýmist jafn há og þar sem þau eru hæst í Evrópu og þau hæstu í mannvirkjagerð.
Þetta er athyglisvert og örugglega ekki í samræmi við það sem haldið er fram í daglegri umræðu hér á landi. En sú staðreynd blasir við að laun hafa hækkað, störfum fjölgað, lífskjör með því albesta sem þekkist og mikil atvinnuþátttaka almennings; mun almennari en tíðkast í samkeppnislöndum okkar. Þetta eru athyglisverðar staðreyndir um efnahagslífið okkar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook