25.10.2006 | 22:28
Svona gera bara sannir pólitískir bragðarefir
Þegar Björgvin G. Sigurðsson, Sunnlendingur með prúðmannlegt yfirbragð, stígur í ræðustól Alþingis láta sér fæstir til hugar koma hvílíkur bragðarefur er þar á ferð. Þingferill hans hefur einkennst af linnulítilli baráttu þeirra Marðar Árnasonar um að vera helstu talsmenn Samfylkingarinnar í menningar og menntamálum á þingi. Segir fátt af lyktum þessa.
En Björgvin leynir á sér. Hann kann bersýnilega að hengja andstæðinga sína innan flokksins upp á krók og láta þá engjast. Þetta sýnir hann nú þessa dagana með eftirminnilegum hætti.
Þannig var að einn keppinauta hans í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Jón Gunnarsson alþm. anaði út í þá dellu að tala heldur illa um hestamennsku, eins og lesa má um hér á síðunni. Össur Skarphéðinsson óð svo út í fenið til hans. Þetta gagnrýndi ég og vakti það athygli. Voru skrif mín meðal annars tekin upp og birt á heimasíðum hestamanna, sem fjölmargir þeirra lesa.
Þarna stóð svo Jón berskjaldaður og varð skotspónn hestamanna um land allt. Ekki síst í Suðurkjördæmi þar sem hestamenn eru fjölmargir. Þetta asnaspark sitt framkvæmdu þeir Össur og Jón fyrir svona hálfum mánuði og urðu engir félagar þeirra til þess að leggja þeim lið út úr ógöngunum sem þeir höfðu komið sér í.
En bíðum nú við. Lætur nú ekki Björgvin G. Sigurðsson skyndilega á sér kræla. En þó ekki fyrr en hann hafði horft drykklanga stund á ófarirnar sem, einkum keppinauturinn í Suðurkjördæmi, var búinn að koma sér í. Og Björgvin sýndi drengskap sinn og væntumþykju - eða hitt þó heldur - á samflokksmanni sínum ærlega í verki með ótrúlega klókindalegum hætti. Hann sendi grein inn á hestavefi, undir því yfirskyni að hann vildi hnýta eitthvað í mig. Allir sáu að slíkt var eintómt yfirvarp. Skotspónninn var félagi hans Jón Gunnarsson.
Greinin varð einn allsherjar lofgjörðaróður til hesta og hestamennsku og rækileg frásögn af afrekum þingmannsins og ást á hestamennsku. Og þessu til áréttingar prýddi frásögnin mynd af þingmanninum lopapeysuklæddum með hestinum Mósa, 16 vetra. Var þetta augljóslega tilraun til þess að skapa sjálfum sér standardímynd hins sanna og innvígða hestamanns.
Þarna var hann sumsé búinn að draga mjög snyrtilega upp mynd af andstæðunum. Annars vegar Jóni keppinauti sínum sem markaður var af dellu sinni um hesta og hestamenn og sem búinn var að fá á sig harða gagnrýni fyrir vikið. Hins vegar blasti við myndin af sjálfum honum; ástmegi hrossa og hrossaræktar og dýrðlings reiðhallanna. Svo bætir hann gráu ofan á svart og beinlínis nýr saltinu í sár vesalings Jóns Gunnarssonar þegar hann talar um stuðning margra þingmanna Samfylkingar við hestamennsku. Og takið eftir orðalaginu, MARGRA samfylkingarþingmanna, en sumsé ekki allra. En áður hafði hann vitnað til ræðu Jóns Gunnarssonar um hestamennsku svo sem til að tryggja að ekkert færi á milli mála.
Allt þetta sýnir að hinn sunnlenski þingmaður er klókur. Svona gera bara sannir pólitískir bragðarefur.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook