Er hernaðaríhlutun aldrei réttlætanleg?

Frá ÍrakAftakan á fólinu Saddam Hussein var algjörlega óréttlætanleg. Ekki bara af þeim ástæðum sem flestir nefna; að aftaka hans sé líkleg til þess að kalla blóðbað yfir Írak og auka ófrið í Mið Austurlöndum. Heldur einfaldlega vegna þess að dauðarefsing er óréttlætanleg. Saddam átti allt hið versta skilið en það felur ekki í sér dauðadóm yfir honum. Dauðadómar eru ætíð fordæmanlegir og einnig í tilviki Saddam Hussein.

En umræðan um örlög Saddam Hussein má ekki draga athyglina frá því að hann var böðull sinnar eigin þjóðar, gekk á milli bols og höfuð á andstæðingum sínum, réðist inn í nágrannaland, lét salla niður tengdasyni sína, föður barnabarna sinna, stóð fyrir fjöldamorðum á saklausu fólki og stýrði hryllingsþjóðfélagi um árabil.

Frammi fyrir þessu stóð hið svo kallaða alþjóðsamfélag algjörlega ráðþrota. Neyðarópin frá Írak bárust að daufum eyrum stjórnvalda og almennings í heiminum. Viðskiptaþvinganir og áætlunin um mat í stað olíu varð drifin spillingu, eins og frægt varð. Þessi spilling teygði sig inn á ganga Sameinuðu þjóðanna og bandaríska dagblaðið Washington Post fullyrðir að Frakkar og Rússar hafi andmælt aðgerðum gegn Saddam Hussein vegna þess að þar á bæ hafi menn grætt svo vel á þessari spillingaráætlun. Hvert haust mættu hins vegar íslenskir stjórnmálamenn með tillögur undir hendinni og inn í sali Alþingis, um að horfið yrði frá viðskiptaþvingunum. Svo var að sjá sem menn væru tilbúnir til uppgjafar fyrir fantinum frá Bagdad.

Gleymum ekki Kosóvó, Súdan og Rúanda

Það er svo sem ekki nýtt. Við munum að á alþjóðavettvangi varð aldrei nægileg samstaða um aðgerðir í Kosovó, þótt fyrir augu okkar sjónvarpsáhorfenda bærust hryllingsmyndir af ofbeldi og nauðgunum. Það var svo undir formerkjum NATO, ekki Sameinuðu þjóðanna, sem innrásin var gerð sem kollsteypti fólunum þar í landi.

Og við munum Rúanda. Hryllingurinn þar var einhver sá versti sem við þekkjum og kunnum sögur af. Í nýrri bók sem kom út hér á landi í haust, Ein til frásagnar, eru átakanlegar frásagnir af ógeðinu sem þar áttu sér stað. Umheimurinn vissi af þessu, en enn stóð alþjóðasamfélagið álengdar og lét hryllinginn viðgangast. Kvikmyndin Hótel Rúanda segir þessa sögu með áhrifaríkum hætti.

Og nú sjáum við enn eitt dæmið frá Darfur í Súdan. Þar vitum við að skelfilegir atburðir viðgangast. Við fáum meira að segja að sjá það í sjónvarpinu, lesa um það í blöðunum og heyra af því í útvarpinu. En alþjóðsamfélagið aðhefst ekki. Ágreiningur ríkir og á meðan gjalda íbúarnir með lífi sínu og yfir þá hellast hörmungarnar.

Er hernaðaríhlutun aldrei réttlætanleg ?

Í Kosovó voru ekki kjarnorkuvopn, ekki heldur í Rúanda, né í Súdan og nú vitum að svo var ekki í Írak. En er það nóg til að segja að innrás í ofbeldisríki sé aldrei réttlætanleg? Eru inngrip í voðaverk sem drýgð eru innan landamæra sjálfstæðra ríkja ætíð bannorð? Vitaskuld ekki. Sú staða getur komið upp og hefur komið upp að réttlátar þjóðir verða að láta til sín taka. Þess vegna er hægt að færa fyrir því rök að ráðast inn í ofbeldisríki, þar sem til dæmis er verið að beita þjóðina mikilli harðneskju. Slíkt geta menn að sönnu ekki gert án umhugsunar, en allir hljóta að sjá að rétturinn til inngripa, jafnvel hernaðarlegra inngripa, er til staðar.

Írak - hvað nú?

Í Írak er þessi umræða hluti sögunnar, sem þó þýðir ekki að umræðan um þau mál eigi að hljóðna. En framundan er hins vegar ennþá þýðingarmeiri spurning og hún lýtur að framtíðinni.

Nýlega kom út stórmerkileg skýrsla sem fjallar um þessa spurningu. Hér er verið að vísa til afraksturs starfs þverpólitískrar nefndar, undir stjórn tveggja þungavigtarmanna í bandarísku þjóðlífi. Annars vegar James Baker gamals trúnaðarvinar Bush eldri forseta. Baker er fyrrum fjármálaráðherra og starfsmannastjóri í tíð forsetans fyrrnefnda. Og hins vegar var um að ræða gamalreyndan öldungadeildarþingmann til  34 ára, Demókratann Lee Hamilton, sem nú gegnir trúnaðarstöðum fyrir Bush yngri, núverandi forseta. Með þeim í nefndinni var mikið og öflugt lið, meðal annars úr stjórnmálum og úr báðum höfuðstjórnmálaflokkunum í Bandaríkjunum.

Niðurstaðan

Niðurstaða þeirra er afdráttarlaus. Nefndin leggur til að ekki verði farið í að auka herafla, eins og sagt er að áform séu nú um. Heldur þvert á móti að draga smám saman úr veru bandarísks herlið í þeirri mynd sem það er, auka diplómatíska pressu á nágrannaríki Írak og efla viðbúnað íraska hersins og lögregluliðsins til þess að taka yfir þær skyldur sem bandaríska herliðið gegnir nú. Tillögur nefndarinnar eru ítarlegar og eru settar fram í einum  79 tölusettum liðum sem hver um sig hefur að geyma margþætta og flókna hluti sem taka til margháttaðra þátta. Höfundarnir leggja áherslu á að nauðsynlegt sé að slíta þessar tillögur ekki úr samhengi. Til þess að árangur náist beri að hyggja að þeim þáttum sem þeir fjalla um. Hvorki nægi einhliða diplómatískar aðgerðir, né samdráttur í herafla Bandaríkjanna einn og sér.  Við framkvæmd tillagnanna verði að hafa allt undir.

Athyglisvert er að skýrsluhöfundar fjalla  sérstaklega um hugmyndir um aukin hernaðarumsvif í Írak. Þeim er hafnað í skýrslunni ( sjá bls 38 til 39). Talað er um að slíkt gæti skilað takmörkuðum árangri á afmörkuðum svæðum og um tiltekinn tíma. En ekki meir. Þeir vekja athygli á þeim takmörkunum  sem jafnvel hið mikla hernaðarveldi lýtur. Og ennfremur nefna þeir  að aukin hernaðarumsvif Bandaríkjamanna í Írak, kynnu að grafa undan mikilvægum verkefnum þeirra annars staðar, svo sem í Afghanistan.

Þessi skýrsla hefur verið upphaf mikillar umræðu. Hún er sannarlega vel rökstudd og barmafull af fróðleik um aðdragandann, umgjörð Íraksmálsins og þó einkum og sérílagi stöðuna nú. Hún er einnig góð leiðsögn um hvernig eigi að takast á við framtíðina í Írak. Það er enda mikilsverðasta umræðan og það sem mestu máli skiptir fyrir írösku þjóðina.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband