6.12.2006 | 22:07
Maður minnist bæði stundarinnar og staðarins
Það eru nokkrir atburðir í lífinu sem eru svo eftirminnilegir að þeir kalla það fram í lífi sínu hvar maður var staddur þegar þeir áttu sér stað. Látum stórar persónulegar stundir í lífi okkar liggja á milli hluta. Þær hafa sérstöðu. En til eru atburðir sem hent hafa og fréttnæmir urðu sem greypa sig með sérstökum hætti í vitundina. Þetta eru líklega stóratburðir að mati manns sjálfs. Einstæðir atburðir á margan hátt. Það koma upp í hugann nokkur dæmi.
Kennedy morðið
Ég var tæpra átta ára þegar John F Kennedy forseti Bandaríkjanna var felldur af byssumanninum Oswald suður í Dallas í Texas þann 22. nóvember árið 1963. Ég var að leika mér á kambinum fyrir neðan hús afa míns og ömmu í hópi vina og frænda þegar fréttin spurðist út á milli okkar krakkanna. Ég hef heyrt margt fólk sem var komið á fullorðinsaldur á þessum árum segja frá þessum atburði. Fólk stóð með tár í augum. Margir óttuðust um framtíð heimsins. Fólk horfði til ungu glæsilegu fjölskyldunnar í Hvíta húsinu með aðdáunarsvip. Ungi Kennedy sem stóð og gerði honor við kistu föður síns hrærði jafnvel steinhjartað.
11. september 2001
Annar atburður gleymist heldur aldrei. Hryðjuverkaárásin 11. september árið 2001 var heimsögulegur atburður. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við munum flest hvar við vorum þá stödd. Sjálfur var ég á afskaplega óvenjulegum stað. Ég hafði farið suður til Afríkuríkisins Burkina Faso til þess að sitja þar ársfund Alþjóðaþingmannasambandsins IPU. Þegar liðið var á fundartímann, spurðust hinar hræðilegu fréttir út. Þetta var afskaplega sérstök tilfinning. Við vorum þarna þrír íslenskir þingmenn; auk mín þau Drífa Hjartardóttir og Gísli S. Einarsson. Forseti sambandins var indversk kona frú Heptulla. Hún sat þarna á forsetastólnum þegar einn félaga hennar hvíslaði einhverju að henni, hún huldi andlitið í höndum sér og hljóp út af stóra sviðinu þar sem hún sat og stjórnaði fundi. Fréttirnar spurðust út. Dóttir frú Heptullah vann í öðrum tvíburaturninum og til hennar hafði ekki spurst. En kraftaverkin gerast. Þegar símasamband komst á hringdi hún í móður sína. Aldrei þessu vant hafði hún sofið yfir sig. Og á leiðinni í vinnuna fékk hún hinar hræðilegu fréttir. Þannig slapp hún lifandi.
Við þessar fréttir komst maður í meiri nálægð við atburðinn hræðilega. En jafnframt var tilfinningin skrýtin. Þarna sátum við bandamenn og andstæðingar Bandaríkjanna. Fulltrúar ríflega 100 þjóða með mismunandi afstöðu til málefna. Það var eins og menn spyrðu. Er friðurinn úti? Hvað næst? Við hringdum heim í þjóðþingin okkar til þess að átta okkur á aðstæðum og við vorum býsna ráðvillt. Þetta reiðarslag var svo skyndilegt.Deilurnar sem staðið höfðu virtust skyndilega svo fáfengilegar. Við afréðum að láta ekki hryðjuverkin bægja frá okkur að ljúka störfum okkar. Umræður urðu litlar og fundinum lauk á sólarhring eða svo.
Snillingurinn
Og svo er það þriðji atburðurinn, sem rifjaðist upp einkar sterkt þegar ég sótti minningartónleikana um hann John Lennon í Háskólabíói sl. sunnudag. Þetta var algjörlega ógleymanlegt. Tónlistarflutningurinn gríðarlega góður. Landslið söngvara og tónlistarmanna úr rokk og poppheimum, ásamt félögum úr Sinfóníunni. Flott útsetning og ekki þarf að spyrja að lögunum; Lennonlögunum, Macartney/Lennonlögunum. Sígildu verkin og önnur síður þekkt. Allt frábært.
Og á tónleikunum gat að líta fjölbreytilega flóru fólks, sem er við hæfi þegar sígildur tónlistarmaður á í hlut. Ungt fólk sem komið var til að hlusta á lög snillingsins, en þó enn fleira eldra fólk, sem hafði notið áhrifa bítlatónlistar. Jafnvel Stonesaðdáendur mættu, án hiks. Þeir vissu að tónlistin væri snilld þó hún jafnaðist í þeirra huga ekki á við Stones. En slíkt var aukaatriði.
Lennon var auðvitað snillingur. Hann mótaði heilu kynslóðirnar ásamt félögum sínum. Merkilegt annars að við kölluðum þá bítlana. Þeir hétu The Beatles, Bjöllurnar. Það bar að vísu við að gripið var til þeirrar nafngiftar í den. En Bítlarnir var nafnið sem við þá festist hér á landi og allt sem því fylgdi. Bítlatíska, bítlamúsík, bítlaþetta og bítlahitt. Og enn gætir áhrifa þeirra. Tónlistin ber af. Hún er sígild og verður spiluð að minnsta kosti um ókomna áratugi og lengur veðja ég á.
En Lennon varð ekki gamall maður. Fæddur árið 1940 og lést fyrir byssukúlu geðveiks morðingja Mark Chapmans 8. desember árið 1980, eða fyrir 26 árum.
Lennon, In memoriam 1940 - 1980
Og er þá komið að þriðja erlenda atburðinum sem hefur þennan sess í mínu lífi. Við Sigrún kona mín vorum rétt komin ofan í litla húsinu, sem við leigðum á síðasta námsári mínu, úti í Boxford í Suffolk héraði í Bretland, vorum að skerpa á hraðsuðukatlinum til þess að hella upp á kaffi, þegar við kveiktum á litla ferðatækinu okkar. BBC 1 var stöðin sem við hlustuðum á; til þess að ná fréttunum. Maður skynjaði strax á hljómi þularins að eitthvað hefði gerst. Og svo tilkynningin. John Lennon was murdered in New York last night. - John Lennon var myrtur í New York í gærkveldi.
Þarna skynaði maður það strax að einhverju ákveðnu tímabili var lokið. - End of an era, sögðu Bretarnir. - Kaflaskil. Menn töluðu ekki um annað í háskólanum mínum. Það ríkti raunveruleg sorg. Í gluggum voru sorgarbönd og Bretar minntust atburðarins með margvíslegum hætti. Þrátt fyrir að bítlarnir þrír lifðu félaga sína og að samstarfi þeirra hefði lokið fyrir all löngu, var þetta samt sem áður einhvers konar yfirlýsing um að einum kafla sögunnar hefði lokið og nýr væri að hefjast.
Lennon var vitaskuld hvorki uppáhaldsbítillinn né uppáhaldstónlistarmaður allrar þeirrar kynslóðar sem tónlist þeirra mótaði. En hann var karakterinn sem var litríkastur. Hugsjónamaður í hópnum og naut því virðingar.
Að lokum
En svona er það. Ólíkir heimsögulegir atburðir greipast í vitund manns. Þeir marka tímamót og hafa áhrif. Þess vegna verða þeir svo minnisstæðir og fylgja manni á leið í lífsgöngunni. Þeir eru innbyrðis ólíkir en eiga það sameiginlegt að vera ógleymanlegir; svo ógleymanlegir að maður minnist bæði stundarinnar og staðarins.
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook