Viðbót, en ekki ógn við lífskjörin

FiskpökkunÞað er alveg rétt sem hefur verið sagt. Umræðan um stöðu fólks af erlendum uppruna sem býr hérna er eðlileg. Þótt ekki væri nema vegna þess að þeim fjölgar ár frá ári sem hingað flytja. Ísland er land í mikilli þróun. Margt er að breytast og nú er það jafn algengt að fólk flytji hingað til þess að sækja sér vinnu og nýja lífsreynslu og það er eðlilegt að Íslendingar freisti gæfunnar í útlöndum.

Kom ekki fram í fréttum nýverið að Íslendingar séu 15 þúsund eða þar um bil í Danmörku. Íslendingar þar í landi eru þess vegna nærri því helmingi fleiri en á Vestfjörðum. Og fjöldi Íslendinga í Lundúnum er um eitt þúsund; svipaður fjöldi og í myndarlegu íslensku sjávarplássi.

Þetta er birtingarmynd alþjóðavæðingar. Við höfum gengið inn í alþjóðlegt samfélag af því að við töldum það eftirsóknarvert. Nú finnst varla nokkur sem telur það hafa verið rangt skref að verða hluti af hinu evrópska efnahagssvæði. Einn fylgifiskur þeirrar ákvörðunar okkar er aukið streymi fólks frá Evrópu. Það er raunar einn hornsteinn Evrópusamvinnunnar. Fjórðungur hins umtalaða fjórfrelsis. Þess vegna er það rétt sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir á heimasíðu sinni 12. nóvember sl: "Ef menn vilja gjörbreytingu í þessu efni, eiga þeir að krefjast úrsagnar úr EES og þar með afnáms þess frelsis, sem fylgir aðildinni bæði fyrir Íslendinga til að starfa á EES-svæðinu og EES-borgara til að koma hingað".

Þeir sem mótmæla þessari þróun núna eiga þess vegna að vera sjálfum sér samkvæmir og tala fyrir úrsögn okkar úr þessu mikla samstarfi. Það er að minnsta kosti rökrétt. Eða snýst þetta mál um eitthvað annað en rökhyggju?

Af hverju hefur útlendingunum fjölgað?

Hvers vegna hefur fólki af erlendu bergi brotið fjölgað hér á landi? Svarið er einfalt. Þeirra hefur verið þörf. Lengi hefur verið sóst eftir fólki frá útlöndum til þess að vinna tiltekin störf. Fiskvinnslan er gott dæmi um það. Sá gríðarlegi vöxtur hagkerfisins hefur kallað eftir fleiri vinnufúsum höndum en eru til staðar á Íslandi í dag. Þess vegna var fólk ráðið hingað til starfa. Ekki til þess að taka yfir störf Íslendinga. Heldur til þess að vinna störf sem ekki var hægt að ráða í.

Nú getum við í rauninni sagt að fjölmörg störf verði ekki unnin nema með viðbótarvinnuafli. Fiskvinnslan hefur þegar verið nefnd. Byggingarstarfsemi hefur verið mönnuð erlendum starfsmönnum, sama má segja um ferðaþjónustu, umönnunarstörf og æ fleiri starfsgreinar. Ef þessar atvinnugreinar væru ekki að einhverju leyti mannaðar fólki af erlendum uppruna, væru þær ekki svipur hjá sjón. Flóknara er það nú ekki.

Í fréttum nýverið var sagt frá því að sláturhúsin sem eitt sinn voru helst mönnuð íbúum sveitanna séu nú nær algjörlega mönnuð útlendingum. Við vitum að stórframkvæmdirnar fyrir austan hefðu ekki verið mögulegar án erlends vinnuafls. Þetta starfsfólk stendur þó stutt við hér á landi og fer þegar verkefnum þess lýkur.

Við vitum svo einnig að starfsfólk af hinu evrópska efnahagssvæði er færanlegra en fólk sem kemur hingað um lengri veg. Það kemur hingað í leit að nýjum tækifærum og fer margt hvert annað í sömu erindagjörðum.

Ekki ógn við lífskjörin

Þess vegna er það rétt sem bent hefur verið á. Tilkoma erlends starfsfólks hefur hjálpað okkur að stækka hagkerfið. Við getum að nokkru þakkað hinum erlendu starfsmönnum okkar bætt lífskjör þjóðarinnar. Vera þeirra hér er þess vegna ekki ógn við lífskjör, heldur viðbót við lífskjörin.

Það er líka athyglisvert að útlendingarnir sem koma hingað, eiga það erindi að sækja sér atvinnu. Þó að atvinnuþátttaka hér á landi sé hlutfallslega meiri en gengur og gerist erlendis þá er það engu að síður athyglisverð staðreynd að hún er ennþá almennari hjá nýbúunum okkar. Þeir skila samfélaginu því tekjum, en sækja sennilega tiltölulega litla þjónustu til samfélagsins.

Gleymum ekki starfsmannaleigunum

Þegar við tókum ákvörðun að nýta okkur ekki út í hörgul möguleika á aðgangshindrunum útlendinga inn á vinnumarkaðinn, var það við tilteknar aðstæður. Hér vantaði starfsfólk. Óvandaðir menn nýttu sér ástandið og svokallaðar starfsmannaleigur spruttu upp. Hafa menn gleymt öllum tilvikunum sem fjölmiðlar greindu ítarlega frá af illri meðferð á erlendum starfsmönnum og endalausum undirboðum? Ekki var það þetta ástand sem menn vildu viðhalda. Svo mikið er alla vega ljóst. Það voru einmitt ein rökin fyrir ákvörðun okkar frá því í maí sl. Reynslan hefur einnig verið sú að vægi starfsmannaleiga hefur dregist mikið saman. Ráðningarsambandið er nú beint á milli starfsmanna og vinnuveitanda. Það er gott.

Á hinn bóginn hefur það gerst að opnun vinnumarkaðar hins evrópska efnahagssvæðis fullnægir þörfinni hér á landi. Því hefur dregið úr komu fólks utan þess svæðis, svo sem íbúa Asíu, eða Afríku. En jafnvel það veldur vanda. Samfélag okkar er farið að byggja að einhverju leyti á menningararfleifð fjarlægra heimshluta. Ýmis dæmi þekkjum við flest úr daglegu lífi okkar og má í því sambandi nefna hina austrænu veitingastaði sem væru óhugsandi án fólks frá Asíu.

Íslenskukunnátta á að vera skylda

En breytingar í samfélagi okkar með tilkomu erlendra starfsmanna kalla á viðbrögð stjórnvalda. Eitt meginatriðið er að við stóraukum íslenskukennslu, til þess að bæta aðlögun hins erlenda fólks að samfélagi okkar. Það er lykillinn. Þar ber okkur að bæta okkur, eins og nú er að gerast. Því er eðlilegt að við gerum afdráttarlausar kröfur um íslenskukunnáttu gagnvart þeim sem hyggja hér á búsetu eða á störf til lengri tíma. Þetta á ekki að vera valkvætt heldur skylda. Það er sannarlega í þágu hagsmuna hinna nýju íbúa á Íslandi að þetta sé gert og það er í þágu samfélags okkar. Þetta hefur verið afstaða stjórnvalda og henni eigum við að fylgja og fylgja henni fast eftir.

Þetta kostar vitaskuld fjármagn; en hvað munar okkur um það, þegar við vitum að tilkoma útlendinganna inn á vinnumarkaðinn hefur búið til stóraukin verðmæti í hagkerfinu okkar. Fyrir nú utan það að slíkt styrkir samfélag okkar og styrkir samfélagsmyndina.

Reynslusaga að lokum

Og svo ein reynslusaga að lokum. Sjálfur hef ég verið á nokkrum faraldsfæti vinnu minnar vegna. Á stuttum tíma hef ég verið í Kaupmannahöfn og Lundúnum og dvalið þar á gististöðum. Það vakti athygli mína að starfsfólkið á hótelunum í báðum þessum borgum var meira og minna af erlendu bergi brotið. Svipað var að segja um ýmis önnur störf.

Ég minnist þess einnig frá búsetu minni í Bretlandi, fyrir margt löngu síðan, að það  var aðallega dugnaðarfólk frá Indlandi sem rak litlar verslanir sem opnar voru á kvöldin. Í Danmörku vekur það athygli ferðamannsins að einkum eru það menn af erlendu bergi brotnir sem aka leigubílum og má þannig eflaust lengi telja áfram. Engum dettur væntanlega í hug að þessari þróun verði snúið við.

Er þá nokkuð sem gerir það að verkum að önnur  þróun verði hér? Við erum þróað vestrænt samfélag með svipuð einkenni og nágrannsamfélög okkar. Munurinn liggur þó í því að hér vantar fólk til starfa. Í mörgum öðrum löndum ríkir atvinnuleysi, Við getum einfaldlega ekki haldið úti heilum atvinnugreinum án aðkomu útlendinga.

Leiðum fram skynsamlega niðurstöðu

Þátttaka útlendinga í íslensku atvinnulífi er komin til að vera, amk. í einhverjum mæli, líkt og í nágrannlöndum okkar. Verkefnið er því að tryggja skynsamlega aðlögun hinna nýju íbúa að okkar samfélagi og skynsamlega aðlögun okkar samfélags að hinum nýja raunveruleika, sem báðum verður í hag. Okkur ber því að auka íslenskukennslu, eins og nú er skipulega unnið að. Okkur ber að styrkja þær stofnanir sem eiga að fylgjast með að farið sé að lögum og reglum á vinnumarkaði. Aðilar vinnumarkaðarins eiga að ræða saman í þeim tilgangi að afstýra tortryggni á milli starfsfólks. Efla þarf starfsemi Fjölmenningarsetursins á Ísafirði  í sama tilgangi. Auka túlkaþjónustu, kynna menningararfleifð okkar fyrir hinum nýju íbúum og þannig má lengi áfram telja.

Við eigum ekki að líta á breytingarnar á vinnumarkaðnum sem vandamál, heldur nýtt viðfangsefni sem við nálgumst með opnum huga, jákvætt  og til þess að leiða fram skynsamlega niðurstöðu.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband