Vilja menn þá ekki bara banna þessa atvinnustarfsemi með lögum ?

Grannt fylgst með hvalskurðiÞann 10. mars 1999 að aflokinni mikilli umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu í heild, skoðanaskiptum og ítarlegri umfjöllun í viðkomandi fagnefnd, sem var sjávarútvegsnefnd Alþingis, komst þingið að þeirri niðurstöðu að hvetja til þess að atvinnuhvalveiðar yrðu leyfðar hið fyrsta. Æ síðan hefur verið unnið í þessum anda. Vísindaveiðarnar sem hófust árið 2003, innganga okkar í Alþjóðahvalveiðiráðið 2002, aðild okkar að CITES sáttmálanum, kynning á málstað okkar á erlendri grundu og margfaldar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda og íslenskra stjórnmálamanna um stuðning við sjálfbærar veiðar. Allt þetta var í anda stefnumótunarinnar frá Alþingi. Markmiðið var skýrt og frá því var aldrei ætlunin að hvika.

Fortíð

Ég sá í fjölmiðli í vikunni að maður einn hélt því fram að hvalveiðarnar væru hluti af fortíð í atvinnulegu tilliti. Ekkert er fjær sanni. Hvalveiðar eru einungis hluti af þeirri auðlindanýtingu sem hver sjálfstæð þjóð hlýtur að hafa heimild til að taka ákvörðun um. Við Íslendingar byggjum auðlindanýtingu okkar á afar skýrri, strangri en einfaldri reglu. Hún er svona: Við viljum nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, þannig að við skilum auðlindinni í jafngóðu ástandi og við tókum við henni, að minnsta kosti. Er eitthvað gamaldags eða úrelt við þetta? Nei, hreint ekki. Þetta er nútímalegt og viðurkennt viðhorf.

Ekki eðlilegt í nútímaþjóðfélagi

Við stundum fiskveiðar okkar undir þessum formerkjum, og enginn segir neitt við því. Hvers vegna skyldum við ekki nýta aðrar auðlindir með sama hætti? Þegar þessu skilyrði um sjálfbærni auðlindanýtingar er fullnægt og við höfum komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hamli auðlindanýtingunni þá á það einfaldlega ekki að vera hlutverk stjórnmálamanna að deila og drottna frekar. Stjórnmálamenn eiga ekki, eftir hugmyndum sínum eða duttlungum, að ákvarða frekar um veiðar á einstökum tegundum. Það er ekki eðlilegt í nútímaþjóðfélagi, þar sem við viljum að almennar leikreglur gildi, að það sé undirorpið pólitískum stundarhagsmunum hvernig við stöndum að auðlindanýtingu okkar, umfram það sem settar hafa verið meginreglur um.

Eiga stjórnmálamenn að ráðskast með fyrirtækin?

Eða hvernig litist mönnum á ef ég segði; þessa tegund má veiða, en ekki þessa. Þetta vil ég friða – og af því bara. Það sjá allir fáránleikann í slíku; - nema auðvitað nokkrir íslenskir kaffihúsaspekingar. Þeir sem nú ganga harðast fram og krefjast þess að við bönnum með lögum atvinnugrein á borð við hvalveiðar og vinnslu fara í raun inn á algjörlega nýjar brautir. Þeirra krafa er um ríkisafskipti af nýrri gerð þar sem til er ætlast að stjórnmálamenn geri tiltekinn atvinnurekstur útlægan eða ólöglegan. Þannig eigi stjórnmálamenn að hafa vit fyrir almenningi og atvinnulífinu. Þetta er vitaskuld athyglisverð skoðun, en vissulega kemur það á óvart að hún rísi við upphaf 21. aldarinnar.

Verði henni fylgt út í æsar getum við seint ímyndað okkur hvert hún leiðir. Í dag eru það hvalveiðarnar, en enginn veit hvert gæti orðið næsta fórnarlambið. Kannski hvalaskoðun, sú ágæta og vaxandi atvinnugrein, en við vitum að til eru þeir hópar erlendir sem álíta hvalaskoðun truflandi fyrir hvalina og að hún standi jafnvel fjölgun þeirra fyrir þrifum.

Á að banna hvalveiðar með lögum

Ef þeir sem nú andmæla hvalveiðum hvað harðast, vilja vera sjálfum sér samkvæmir er eðlilegt að þeir krefjist þess að Alþingi banni hvalveiðar með lögum. Að þessi tiltekna atvinnustarfsemi verði þannig gerð ólögleg. Það hefur satt að segja undrað mig að þessi skoðun hafi ekki komið fram í umræðum hvalveiðiandstæðinga hér á landi. Málið er þó afskaplega einfalt. Annað hvort er þessi atvinnurekstur leyfður, eins og stjórnvöld hafa gert, ellegar bannaður og þeir sem andmæla hvalveiðum nú hljóta að vera þeirrar skoðunar að slíkt skuli gert.

Þá hefði það orðið stefnubreyting......

Sú stefna var mörkuð þegar Íslendingar gengu aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2002 að hefja ekki veiðar í atvinnuskyni fyrr en að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Annars vegar að enginn framgangur væri í endurskoðun veiðistjórnunaraðferða og hins vegar að atvinnuveiðar hæfust ekki fyrr en eftir 2005. Það var ljóst á þessu ári að bæði skilyrðin voru uppfyllt, þannig að hefði ég tekið ákvörðun um eitthvað annað en atvinnuveiðar á hval þá hefði það verið stefnubreyting.

Ríkisstjórnin hefði orðið að skýra þá stefnubreytingu. Ekki bara fyrir íslenskum hagsmunaaðilum, ekki bara á Alþingi, heldur líka á alþjóðlegum vettvangi. Það hlyti líka að kalla á umræðu um stöðu Íslands almennt en ekki skal ég segja til um hvort sú umræða hefði orðið jafn hávær og sú sem nú er um hvalveiðarnar. En óneitanlega yrðu það snúið fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjálfbærri auðlindanýtingu að útskýra sinnaskiptin.

Bágt er til þess að hugsa.....

Það er mjög bágt að hugsa til þess að fulltrúar virðulegra ríkja sem vilja láta taka sig alvarlega á alþjóðlegum vettvangi, vinaþjóðir okkar á borð við Breta og Svía svo dæmi séu tekin, skuli fara með fleipur. Bera upp á okkur Íslendinga hluti sem fá ekki staðist og öllum á að vera ljóst að eru staðlausir stafir. Það er óhrekjanleg staðreynd að hvorug þeirra hvalategunda sem veiðar hafa verið leyfðar á, hrefna eða langreyður, er í útrýmingarhættu hér við land, langt því frá.

Staðfesting vísindamanna

Það hefur vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins staðfest, það hefur vísindanefnd NAMMCO staðfest og jafnvel Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn sem oft er vitnað til í þessu sambandi, hefur ekki kveðið upp úr með það að langreyður á Íslandsmiðum sé ofveidd, öðru nær. Það verður þess vegna ekki séð hvað veldur þessu einkennilega útspili svo virðulegra stjórnvalda sem um ræðir.

Hvað gengur þessum herramönnum til?

Er þetta vanþekking hjá þessum herramönnum? Það er illt til þess að vita ef svo er og að menn vaði uppi í alheimspressunni og geri sig seka um þekkingarleysi á grundvallaratriðum þess sem þeir eru að tjá sig um. Ég vil þó ekki trúa því að þeir tali gegn betri vitund. Því verður ekki annað séð en að þetta ágæta fólk sem talar með þessum hætti sé orðið uppvíst að fullkomnu þekkingarleysi og skeytingarleysi um staðreyndir, sem gengisfellir það sjálft í allri umræðu á komandi tímum. Ég mun að minnsta kosti hugsa mig um tvisvar þegar ég hlusta á málflutning umhverfisráðherra Svíþjóðar og sjávarútvegsráðherra Breta eftir þeirra frammistöðu í þessu máli. Svo ekki sé nú talað um umhverfisráðherra Ástralíu, en þar í landi stunda menn skytterí á úlföldum og kengúrum úr þyrlum og skipa sér í hóp þjóða sem ekki hafa viljað staðfesta Kyoto-sáttmálann, sem er ætlað að hamla gegn mengun. Enginn þessara þremenninga hefur látið svo lítið að leiðrétta rangfærslur sínar. Þeir hefðu þó orðið menn að meiri við það. Ætli þeir séu að skjóta sér á bak við vissu um að almenningur í löndum þeirra viti ekki betur um stöðu hvalastofna hér við land?

Ekkert af þessu hrekur okkur þó af leið. Við vitum að ákvörðunin var rétt, við vitum að hún var rökrétt og nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar og við vitum að þetta er samgróið þeirri stefnumótun sem íslensk stjórnvöld og íslenskir stjórmálamenn, raunar hvar í flokki sem þeir eru, hafa staðið fyrir.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband