12.10.2006 | 12:11
Samfylkingin gerir hestamennsku að blóraböggli
Það er fróðlegt og vekur undrun. En Samfylkingin er búin að finna blóraböggul sem hægt er að kenna um það sem miður fer í þjóðfélaginu. Jón Gunnarsson, einn talsmanna flokksins í Fjárlaganefnd Alþingis útlistaði þetta í umræðum um fjáraukalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í fyrradag. Össur Skarphéðinsson hinn nýkrýndi þingflokksformaður flokksins hnykkti á þessu á stórum og fjölmennum fundi SÁÁ þar sem við vorum báðir á meðal ræðumanna.
Boðskapurinn er einfaldur. Burt með stuðning hins opinbera við reiðhallir og aðra aðstöðusköpun fyrir hestamenn og þannig má auka fjármuni til annarra og þarfari málaflokka.
Lýðskrum af verstu gerð
Þetta er lýðskrum af verstu gerð, þjakað af fordómum sem yfirleitt fylgja vanþekkingunni. Málflutningur þeirra lýsir ótrúlegri þröngsýni og er í raun yfirlýsing um mjög neikvæða afstöðu þeirra til merkilegs æskulýðs- og íþróttastarfs, sem í gegn um tíðina hefur notið lítillar fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins.
Tilræði við velferðarmálin?
Ég hef oft notið þess að fylgjast með glæsilegum hestum undir stjórn snjallra og oft á tíðum vel menntaðra knapa í reiðhöllinni á Svaðastöðum á Sauðárkróki. Aldrei hefur það flögrað að mér að uppbygging þessarar mikilvægu byggingar væri tilræði við velferðarmálin í landinu eins og þessir tveir nafngreindu garpar hafa verið að halda fram í málflutningi sínum. Þvert á móti. Þetta hefur verið í mínum huga birtingarmynd glæsilegrar íþróttar þar sem ungir og eldri koma saman. Kynslóðabilið víkur fyrir skemmtilegum leik og áhugaverðu starfi.
Fjöldaíþrótt og vaxandi hlutur kvenna
Á dögunum nefndi ég það líka, sem ég fylgdist með glæsilegri hestasýningu í reiðhöllinni á Króknum, að eftirtektarvert væri einnig að konur hösluðu sér æ meiri völl í þessari grein. Það er og mál að sönnu. Æ fleiri afreksknapar úr hópi kvenna láta nú að sér kveða í hestaíþróttum. Það er vel.
Hestaíþróttir eru fjöldaíþróttir. Þarna styrkjast bönd þéttbýlis og strjálbýlis. Gagnkvæmur skilningur fólks glæðist. Er það ekki vel?
Félagar í Landssambandi hestamanna eru nú um 10.400 en reiknað er með að 25-30 þúsund manns stundi hestamennsku í landinu. Í sumum fjölskyldum sem í heild eru virkar í sportinu eru kannski ekki nema einn eða tveir fjölskyldumeðlimir skráðir í hestamannafélög, auk þess sem sumir, sem ekki koma að neinum keppnum eða formlegri hestamennsku, eru ekki í félögum.
Fótbolti án fótboltavalla, golf án golfvalla?
Engu að síður er Landssamband hestamannafélaga nú þriðja fjölmennasta sérsamband ÍSÍ. Knattspyrnan hefur alltaf verið fjölmennasta greinin en golfið kemur næst, en í báðum þessum greinum eru þáttakendur flestir skráðir í félög og klúbba. Þannig kemst t.d. ekki nokkur maður inn á golfvöll án skírteinis eða með einhverju aðgangsgjaldi.
Engum dytti í hug að þessar íþróttagreinar, knattspyrnu og golf, væri hægt að stunda nema til þess kæmi fjárhagslegur styrkur frá opinberum aðilum. Það er því gjörsamlega óskiljanlegt að tveir áhrifamiklir stjórnmálamenn skulu leggja sérstaka lykkju á leið sína til þess að varpa hnútum að uppbyggingu fyrir hestamenn og hestamennsku.
Margháttuð not
Við vitum vel að uppbygging á aðstöðu til hestamennsku hefur skipt máli. Öll þessi hús hafa margsannað tilgang sinn sem sýninga- og keppnishallir, ómisssandi kennsluaðstaða t.d. fyrir börn, ungmenni og fullorðna og tamninga- og þjáfunaraðstaða sem hefur stóraukið fagmennsku og þar með framlegð greinarinnar. Þessi uppbygging var kostuð af sveitarfélögunum, ríki, hestamannafélögunum sjálfum og einkaaðilum auk þess sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins fór fyrir löngu síðan að styðja slíka uppbyggingu. Einnig hefur þessi aðstaða nýst til kennslu og þjálfunar fyrir fatlaða. Að því er meðal annars stuðlað með styrkveitingu Landbúnaðarráðuneytisins sem Jón Gunnarsson og Össur Skarphéðinsson telja sérstaka ástæðu til að gagnrýna. Svona gagnrýni getur hreinlega ekki komið til nema vegna þess að mennirnir hafa ekki kynnt sér málin nægilega vel.
Peningar sem urðu til í greininni sjálfri
Svo skulum við ekki gleyma einu. Þessir styrkir sem veittir hafa verið nú til uppbyggingar á aðstöðu til hestamennsku renna til framkvæmda um land allt. Hér er um að ræða ráðstöfun á fjármagni sem varð til við sölu á Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þessir peningar hafa meðal annars orðið til af viðskiptum við bændur og vegna framlags þeirra. Það er því ekki óeðlilegt að þeim sé ráðstafað til slíkra verka.
Hólar menntasetur hestamennskunnar
Í Skagafirði hefur hestamennskan skipað verðskuldaðan sess. Með framlagi sveitarfélags, einstaklinga og í gegn um Hestamiðstöðina og fleiri var fjármunum varið til hinnar stórglæsilegu reiðhallar á Sauðárkrkóki, sem hefur marg sannað gildi sitt. Á Hólum er nú menntasetur hestamennskunnar, sem aukið hefur hróður hennar, bætt hana og opnað í raun leið fyrir nýja atvinnustarfsemi um land allt. Hestamennskan er hluti af vaxandi ferðaþjónustu, tugþúsundir Íslendinga og útlendinga nýta sér hestaferðir sem hluta af afþreyingu í ferðaþjónustu á ári hverju. Hesturinn er útflutningsgrein, mikilvæg afþreying og síðast en ekki síst - æskulýðs og forvarnarstarfsemi.
Eru þeir ekki líka á móti sparkvöllunum?
Þarna hittast kynslóðirnar í leik og starfi og verja saman frístundum. Rannsóknir sýna mikilvægi þess að við foreldrar og börnin okkar getum notið sem mests tíma saman. Hestamennskan er kjörinn vettvangur til þess. Það er um tómt mál að tala að slíkt gerist án eðlilegrar aðstöðusköpunar. Bygging reiðskemma, reiðhalla og annarra mannvirkja er nauðsynlegur liður í því.
Þess vegna var það dapurlegt að hlusta á sjálfan foystumann Samfylkingarinnar á Alþingi, á baráttufundi SÁÁ, tefla aðstöðusköpun á sviði hestamennsku, gegn hagsmunum þessarar merku fjöldahreyfingar sem svo margt gott hefur gert í þjóðfélagi okkar. Þetta er auðvitað algjörlega óboðlegt.
Eða dytti þessum manni það í hug að segja að uppbygging á sparkvöllum um land allt, sem ríkið kemur að fjármögnun á, sé eins konar tilræði við SÁÁ, eða stúkubyggingin við Laugardalsvöll ? Auðvitað ekki. En honum og þeim fleiri Samfylkingarmönnum finnst í lagi að sparka í hestamenn.
Hvað gengur eiginlega á í þessum flokki?
Og svo er það eitt svona í blálokin. Anna Kristín Gunnarsdóttir alþm. Samfylkingar hefur lagt sig fram um að kalla eftir auknu fé til byggingar á reiðhöll. Það má hún þó eiga. Henni hefur ekki þótt nóg gert og hygg ég að það sjónarmið eigi hljómgrunn víða. Kaldar eru því kveðjur þessara félaga hennar nú í hennar garð. Það er eins og Samfylkingarforystan ástundi einelti á flokksfélögum í Skagafirði þessa dagana. Nú í þessum málum sem snúa að hestamennsku, en áður á sviði umhverfis og orkumála, eins og þjóðin hefur fylgst með. Mér kemur það kannski ekki við, en langar þó til að spyrja; hvað gengur eiginlega á í þessum flokki?
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook