9.10.2006 | 18:22
Góður fundur markar upphaf baráttunnar
Aðalfundur Kjördæmisráðsins okkar í Norðvesturkjördæmi nú um helgina, sem var haldinn á Ísafirði var afar vel heppnaður. Fundinn sóttu um 130 til 140 fulltrúar, alls staðar að úr kjördæminu. Verkefnið var margþætt. Að ákveða aðferð við að stilla upp framboðslista fyrir næstu alþingiskosningar, stilla saman strengina, marka stefnu og hefja undirbúning að alþingiskosningunum í vor.
Vitaskuld voru skoðanir skiptar um val við uppstillingu á lista. Skipulagsreglur gera ráð fyrir tvenns konar fyrirkomulagi. Prófkjöri þar sem flokksbundnir sjálfstæðismenn kjósa á milli frambjóðenda. Uppstilling þar sem kjörin fjölskipuð kjörnefnd leggur fram lista frambjóðenda. Í báðum tilvikum er það síðan Kjördæmisráðið sem hefur síðasta orðið. Það hefur úrslitavaldið, að fengnu endanlegu samþykki miðstjórnar flokksins.
Menn skiptust á skoðunum um fyrirkomulagið. Þannig hefur það jafnan verið. Þetta eru álitamál og því eðlilegt að mismunandi viðhorf komi fram. Eftir kosningar í Kjördæmisráðinu var svo ákveðið að uppstillinganefnd undirbyggi lista til þess að leggja fram til afgreiðslu í Kjördæmisráðinu.
Mikil eindrægni hefur verið í starfi Kjördæmisráðsins. Menn hafa augun á meginmarkmiðinu sem er að ná árangri í kosningunum að vori. Það er ætlun okkar allra. Flokkurinn hefur sterka stöðu á sveitarstjórnarvísu í kjördæminu. Skoðanakönnun Capacent - Gallup sem var kunngerð á dögunum, endurspeglar góða stöðu. Flokkurinn er langsterkasta stjórnmálaaflið í kjördæminu. Með góðu starfi og ríkri samstöðu ætlum við að tryggja að svo verði í vor.
Málefnavinna er einnig hluti af þessum undirbúningi. Samþykkt var á þinginu kraftmikil og ítarleg ályktun sem ágætar umræður fóru fram um. Með hana í farteskinu förum við svo á Landsfund Sjálfstæðisflokksins í vor, áréttum sjónarmið okkar og leggjum þau til grundvallar.
Í rauninni er fundur sem þessi líka mikilvægur til þess að treysta vináttuböndin. Kjördæmið hefur verið við lýði í þessari mynd í fjögur ár. Það var ekki vandalaust að stilla saman strengina í svo stóru og á margan hátt innbyrðis ólíku kjördæmi. Slíkt hefur þó gengið vonum framar að mínum dómi. Maður finnur og sér að kynni fólks eru að aukast og vináttuböndin að verða traustari.
Framundan er kosningavetur þar sem alþingiskosningar verða 12. maí nk. Nú skiptir miklu máli að vel takist til og okkar stóra og samhenta sveit nái góðum árangri að vori.
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook