Í kompaníi við soðinn fisk

Gómsæt fiskisúpaFátt gleður sælkerabragðlaukana meira en gómsætt bragð af fiskmeti í munni. Ég tek eftir því að þeim fer fjölgandi sem taka undir þessa skoðun. Það er ekki bara vegna heilnæmisins og hollustunnar. Heldur líka vegna þess að smám saman erum við að gera okkur ljóst hversu möguleikarnir við að gera góðan mat úr fiskinum okkar virðast endalausir. Þess vegna verður maður var við upphaf einhverrar vitundarvakningar nú um stundir.

Hádegisverður á veitingahúsi samanstendur hjá flestum sem ég þekki af fiski. Það er eðlilegt. Fiskurinn er létt og ákjósanleg fæða fyrir þá sem bak máltíðinni þurfa að snúa til vinnu sinnar.

Í kompaníi við soðinn fisk, gellur og kinnar

Sjálfur hef ég tekið eftir því að hvað varðar mig og fiskneyslu mína, virðist allt snúast til upphafsins. Hin gömlu gildi fiskmáltíðarinnar hef ég í æ meiri hávegum. Ég lét fallerast af hátimbraðri eldamennsku á fiski eins og öðrum matartegundum og var afsprengi veitingabyltingar 8. og 9. áratugar síðustu aldar. Nú er ég horfinn frá þessu. Einföld matseld, þar sem fiskbragðið nær að njóta sín til hins ítrasta er mitt uppáhald. Með öðrum orðum: Mín óskastaða við eldhúsborðið er í kompaníi við soðinn fisk. Best er það þó vitaskuld ef bráðinn vestfirskur hnoðmörinn, mörflotið sjálft,  nær og fær að laða fram þetta sérkennilega ólýsanlega bragð sem  þeir einir geta ímyndað sér sem hafa fengið þetta inn fyrir varirnar,  til náinna kynna við bragðlaukana. Glæsilegustum toppi nær slík matseld þegar í hlut eiga soðnar nýjar kinnar;  með beinum til bragðaukandi áhrifa. Soðin ýsa og gellur ná hér um bil sama árangri, en eru þó merkjanlegum sjónarmun á eftir.

Til varnar mörflotinu...

 Það er þetta með mörflotið. Því eru valin alls konar ónefni og það sakað um að vera ávísun á óhollustu. Ég veit hins vegar um marga vestfirska vini mína sem blóta á laun. Fá sér mörflot með fiskinum sér til hátíðarbrigða, rétt eins og  hóglífsmaður í megrunaraðhaldi sem nælir sér í stöku konfektmola með kaffinu um helgar, eða gamall vindlareykingarmaður sem fær sér kúbverskan vindil á hátíðarstundum lífsins. Þetta er ágæt aðferð og líkleg til samkomulags á heimili, þar sem vitund um heilbrigt líferni er óvenju sterk.

Fórn í þágu góðs málstaðar

 Nú er mér sagt að einmitt  framangreind  matseld hafa verið á góðri leið með að drepa áhuga fólks á því að borða fisk. Þetta kemur fram í könnunum og rýnihópurinn sem situr með mér að málsverði – börnin mín – hafa sömu sögu að segja. Ég hef því fyrir löngu ákveðið að fórna mér í þágu góðs málstaðar. Viðurkenna staðreyndir og tileinka mér fjölbreyttari uppskriftir að góðum fiskmáltíðum.

 Það er af mjög mörgu að taka. Og sem betur fer liggja slíkar uppskriftir víða á lausu. Ég hef einnig ákveðið sem sjávarútvegsráðherra, að auka vitund fólks um gæði fisks, meðal annars sem ákjósanlegs hráefnis til matargerðar; jafnt til hversdagsbrúks og veisluhalda. Þessa mun sjá stað á komandi hausti með ýmsum hætti.

Í ýmsum tilbrigðum

 En heima hjá mér er fiskur í uppáhaldi. Eins og svo margir höfum við gaman af því að elda fisk í ýmsum tilbrigðum. Og sem fljótleg og áreiðanleg uppskrift að vinsælum veislumat, sem dugir líka vel daginn eftir á hádegisverðarborð um helgi, er fiskisúpan sem hún Sigrún konan mín hefur þróað alltaf sívinsæl. Aðferðin hefur smámsaman orðið til  upp úr uppskrift sem henni áskotnaðist fyrir einhverjum árum.

 Galdurinn er ekki flókinn. Maður prófar sig áfram með fisktegundir sem eru til taks eða heilla. En einu skal slegið fram. Skötuselurinn er einstaklega góður í fiskisúpu og því að mínu mati hreint ómissandi. Stinnur og bragðgóður og hentar því einkar vel til súpu gerðar. En hér kemur uppskriftin, eins og hún er oftast gerð um þessar mundir.

 Uppskriftin

800 grömm af fiski, t.d. ýsu eða lúðuflök, eða hvort tveggja og svo vitaskuld skötuselur

500 gr. rækjur, eða sama magn með humri rækjum og hörpudisk

ein pakkning af ýmsum skelfisktegundum, sem fæst í mörgum verslunum

200 gr. ferskir sveppir, sneiddir niður að vild

1. saxaður laukur

hálfur blaðlaukur

1        söxuð græn papríka

1 söxuð gul paprika

1  söxuð rauð paprika

2 gulrætur, skornar í sneiðar

200 gr. rjómaostur

hálf dós af ananaskurli með safanum

tveir og hálfur desilítri  matreiðslurjómi

hálf teskeið paprikuduft

ein teskeið karrí

2 fiskteningar, eða 1 skammtur af fiskkrafti með 2 lítrum af vatni

olía til steikingar

 

            Laukur, blaðlaukur, paprika, sveppir og gulrætur eru mýktir í olíu. Sett í pott með ananaskurlinu og safanum og látið krauma í  smástund. Fisksoði, rjómaosti og rjóma bætt út í og látið krauma í 8 – 10 mínútur. Rétt áður en súpan er borin fram, er fiski bætt í og látið krauma í þrjár mínútur en þá er skelfiskinum bætt út í.

 

 Gott að bera fram með heitu brauði.

 

 

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband