Sígildur listamaður syngur sjómannalögin

Raggi Bjarna afhendir vefara fyrsta eintakið af Vel sjóaðurÞað fylgir þeim félögum Ragnari Bjarnasyni söngvara og Þorgeiri Ástvaldssyni tónlistar - og útvarpsmanni hressilegur andblær. Þegar þeir birtust í dyragættinni hjá mér á skrifstofu Sjávarútvegsráðuneytisins varð strax augljóst að framundan var skemmtilegur tími eins og kom á daginn.

Erindið var að afhenda mér fyrsta eintakið af stórfínum geisladiski Ragnars með sjómannalögum. Sum hafði hann sjálfur fyrir margt löngu gert landsfræg, eins og til dæmis Ship ohoj. En önnur; svo sem lag eftir Magnús Eiríksson og lög sem hann syngur með Þorvaldi Halldórssyni og Helenu Eyjólfsdóttur hafa orðið fræg í flutningi annarra. Í tilviki lagsins Hvítir mávar sem Ragnar syngur með Helenu á nýja disknum, má segja að hann hafi bætt við nýrri vídd. Lagið gerði Helena sjálf margfrægt eins og vart þarf að tíunda. Svo er að finna á disknum lag sem Elllý Vilhjálms söng, Gullfoss með glæstum brag. Þeir Ragnar og Þorgeir sögðu mér að þetta lag hefði verið samið til kynningar á því sögufræga og þjóðsagnarkennda skipi Gullfossi. Þetta var eins konar ferðakynningarlag, til þess að draga fram möguleika á ferðum með skipinu; ferðamarkaðsfærsla þess tíma. Nútímatækni leyfir að bætt sé inn söng Ragnars svo að hann syngur á plötunni dúett með söngkonunni dáðu.

Stórmerkiegur hluti alþýðumenningarinnar

Í rauninni eru sjómannalögin stórmerkilegur hluti af alþýðumenningu okkar. Blómatími þeirra var kannski ekki mjög langur; stóð þó í nokkra áratugi. Sjómannalögin drógu oft upp rómantíska mynd af grundvallaratvinnu okkar, sjómennskunni. Hefur mönnum stundum þótt nóg um. Ragnar sagði mér sögu af því að fullorðinn sjómaður hefði vikið sér að sér eitt sinn og spurt.  - Ert þú þessi Raggi Bjarna. Því jánkaði söngvarinn. Sjómaðurinn sagði þá við hann að fyrir löngu hefði hann fengið meira en nóg af þessum mikla rómans í kring um sönginn hans. Þegar maður stendur út á dekki í norðaustan brælu, kannski kaldur og blautur og heyri þig syngja Ship ohoj og um blikandi bárufans og ástir og ævintýr, í gegn um hátalaragarganið í mastrinu þá er mér alveg nóg boðið, sagði sjómaðurinn. Og Raggi hló dátt þegar hann rifjaði upp þessa sögu.

Þetta var ekki eina sagan sem Ragnar sagði okkur á meðan hann stóð við. Hann kunni þær greinilega í hrönnum og allt sem ég hafði heyrt menn segja af söngvaranum dáða og virta, reyndist dagsatt. Hann hafði þessa útgeislun og sögurnar, sem hann fléttaði inni í frásagnir af einstökum lögum og tilvikum og atburðum úr lífi sínu, urðu svo dæmalaust lifandi.

Nær sannleikanum en menn grunar

Í raun á Ragnar Bjarnason alveg sérstakar þakkkir skildar. Sjómannalögin sem hann gerði svo víðfræg, eru þýðingarmikill þáttur og hafa örugglega stuðlað að því að glæða sjómannsstarfið þeirri virðingu sem það nýtur hjá landsmönnum. Ennfremur hafa þessi lög og textar eflt vitundina um starfið jafnt á meðal sjómanna og þjóðarinnar í heild. Það ætti enginn að gera lítið úr því.

Sannleikurinn er líka sá að sjómenn eru stoltir af starfi sínu. Þetta kom skýrt fram í könnun sem Gallup gerði fyrir skömmu fyrir sjávarútvegsráðuneytið. Textarnir úr sjómannalögunum eru því ef til vill nær sannleikanum en oft er talað um. Menn ættu þess vegna að hugsa sig tvisvar um áður en þeir kveða upp áfellisdóma yfir boðskap sjómannalagakveðskaparins.

Þeir semja ekki svona texta um verðbréfamenn

Það má líka rifja upp að á margfrægri ráðstefnu á Ísafirði fyrr á árinu og sem við stóðum fyrir í sjávarútvegsráðuneytinu, Draumi hins djarfa manns, rifjaði sá ágæti útvarpsmaður og tónlistaráhugamaður, Ásgeir Tómasson það upp hvaða grundvallarþýðingu sjómannalögin hefðu haft á marga lund. Hann sýndi fram á að sjómannalögin undirstrikuðu  sannfærandi og með sínum hætti, þá einstæðu stöðu sem sjómannsstarfið hefur í vitund almennings. Þau rómuðu störf verðbréfamanna og annarra sem hátt fljúga núna í þjóðfélagi okkar munu seint kalla fram þá andagift skálda og tónsmiða  að þeir fái um sig samda texta á borð við þá sem gerðir voru við sjómannalögin. Enda hlógu menn að tilhugsuninni einni þegar Ásgeir Tómasson nefndi þetta í sínu ágæta erindi.

Skáld en ekki textaklambrarar

Loks er eitt að nefna. Margir hinna gömlu og góðu sjómannatexta eru prýðisvel gerðir. Þarna komu heldur engir aukvisar við sögu. Ási í Bæ, Jónas Árnason og Kristján frá Djúpalæk voru engir venjulegir textaklambrarar. Þeir voru skáld og ortu texta við sjómannalög. Margir aðrir gerðu og góða texta, enda augljóst að menn urðu ekki gjaldgengir á þessu sviði nema að vera vel verseraðir í skáldskaparlist.

Það mátti jafnvel finna dæmi um limruform í sjómannatextum. Form sem ekki getur víða að finna í dægurtextum. Þó menn átti sig kannski almennt á því við fyrstu sýn, þá blasir við ef nánar er að gáð að sjómannalagið, Hann var sjómaður dáðadrengur, er ort undir bragarhætti limrunnar.

Þess vegna er margföld ástæða til þess að hlusta á sjómannalögin í flutningi söngvarans dáða, Ragnars Bjarnasonar. Hann á klárlega erindi inni í dægurmenningu samtímans. Í þeim skilningi er hann sígildur listamaður.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband