18.6.2006 | 22:52
Öflug, samhent ríkisstjórn
Geir H. Haarde forsætisráðherra kom að kjarna málsins í ræðu sinni á 17. júní, er hann lýsti meginviðfangsefnum ríkisstjórnarinnar á næstunni. Hann undirstrikaði stöðu efnhagsmála og varnarmála, vék máli sínu að nokkrum viðfangsefnum öðrum sem blasa við okkur á komandi vikum og mánuðum.
Hér talaði forsætisráðherra samhentrar ríkisstjórnar, sem gerir sér vel grein fyrir því sem mestu skiptir á næstunni. Þrátt fyrir fjölmiðlatal um annað á síðustu vikum sjá menn nú að ríkisstjórnin er öflug og samstíga. Átökin sem urðu í Framsóknarflokknum eru nú að baki. Flokkurinn kemur samhentur til starfa með nýtt fólk í ríkisstjórninni.
Á pólitískum berangri
Það vaknaði vonarneisti í hugum stjórnarandstöðunnar um að dagar ríkisstjórnarinnar yrðu senn taldir er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins boðaði afsögn sína. Fyrst sem forsætisráðherra og síðar sem flokksformaður í haust. Þegar þær vonir rættust ekki hófst tímabil vonbrigða og biturleika. Það sá þjóðin í gegn um fjölmiðlana. Stjórnarandstaðan stendur nú eftir á sínum pólitíska berangri, sár og gröm.
Markaði djúp spor
Það eru óneitanlega mikil tíðindi er Halldór Ásgrímsson tilkynnir brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Hann hefur um áratugi verið sú stærð í íslenskum stjórnmálum, að vænta mátti umróts í kring um afsögn hans. Það er hins vegar ljóst af viðbrögðum síðustu daga að flokksmenn gera sér grein fyrir þeirri feigð sem sundurlyndið veldur flokknum. Þess vegna einkennir áherslan á samstöðu hina pólitísku umræðu Framsóknarmanna núna og er það vel.
Halldór hefur markað djúp spor í pólitíska sögu okkar. Hann hefur verið gerandi og mótandi á ýmsum sviðum og virkur þátttakandi á öðrum sviðum. Ég hef unnið með honum sem samverkamaður frá því ég settist á þing fyrir 15 árum. Síðustu árin átti ég talsvert saman við hann að sælda sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, en hann var utanríkisráðherra og forsætisráðherra og svo vitaskuld flokksformaður. Eftir að ég settist í ríkisstjórn í septemberlok sl. átti ég meira og beinna samstarf við hann og get borið um að það var allt hið besta. Mér fannst gott að vinna undir verkstjórn hans í ríkisstjórninni og hann hafði góðan skilning á málaflokki þeim sem ég hef forystu um. Er það að vonum. Hann er honum einkar vel kunnugur sem sjávarútvegsráðherra á umbrotstímum.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er orðinn forsætisráðherra
Það breytir því þó vitaskuld ekki að við Sjálfstæðismenn fögnum að sjálfsögðu því að formaður okkar sé nú orðinn forsætisráðherra. Geir H. Haarde á eftir að skila því starfi vel og farast það vel úr hendi. Skýr myndin sem hann brá upp á Austurvelli á Þjóðhátíðardaginn undirstrikaði vel hve hann gerir sér grein fyrir meginviðfangsefnum okkar á næstunni. Það er þýðingarmikið. Sjálfstæðisflokkurinn er einhuga og öflugur sem fyrr og þess albúinn að takast á við verkefni framtíðarinnar.
Í því sambandi má víkja að efnahagsmálunum. Þar hefur flest gengið okkur í hag. Lífskjör hafa batnað, mikil og margbreytileg atvinna í boði og hið opinbera hefur getað staðið undir miklum verkefnum, samfara því að lækka skatta. Þau verkefni sem við blasa eru ekki vegna þess að við stöndum frammi fyrir einhverri vá. Öðru nær. Þetta eru einvörðungu verkefni sem viðráðanleg eru í góðri sátt aðila.
Þess vegna bera að undirstrika það sem Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á 17. júní. Hann lagði áherslu á hugmyndafræði sáttar og samvinnu við launþega og vinnuveitendur. Það er skynsamleg stefna á öllum tímum og alveg sérstaklega þegar hægja þarf á siglingunni, beita aðeins upp í og koma í veg fyrir ágjöf. Þannig tryggjum við að kúrsinn verði réttur og að við komumst í höfn áfallalaust, með góðan aflafeng.
Verk Sigríðar Önnu
Við hörmum auðvitað að þurfa að sjá á bak Sigríði Önnu úr stóli umhverfisráðherra. Með henni vann ég náið árum saman, er hún var þingflokksformaður og ég varaformaður. Síðar höfðum við stólaskipti í þeim hlutverkum og unnum loks saman í ríkisstjórn. Hún er einstaklega samviskusamur, heiðarlegur og vel upplýstur stjórnmálamaður. Öllum er ljóst að hún markaði heilmikil spor í umhverfismálin. Sérstaklega er eftirtektarvert hve henni tókst að draga úr spennunni sem umlukið hefur málaflokkinn. Það er heilmikið afrek sem ekki gerist án fyrirhafnar. Það er öllum ljóst að hún styrkti sig mikið í starfi sínu og fyrir vikið er það almennt mat Sjálfstæðisfólks að harma að hafa þurft að láta af hendi það embætti. Þau verkefni sem hún hefur unnið og undirbúið verða að veruleika á næstunni. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarðinn sem allir gera sér grein fyrir að hún hafði pólitíska forystu um og mun væntanlega sjást í þinglegu formi í haust.
---------------
Nú er stuttur tími til kosninga. Ríkisstjórnin mun halda áfram vinnu sinni og marka stefnu sína skýrar. Fróðlegt verður á hinn bóginn að sjá hvort stjórnarandstöðunni tekst að mjaka sér undan mótmælaspjöldunum,skafa burtu fýlusvipinn, marka sér stefnu og undirstrika valkostina.
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook