Öld hinna miklu stjórnmálasigra

20 öldin í sögu okkar, verður í framtíðinni nefnd öld hinna miklu stjórnmálasigra. Heimastjórnin árið 1904, fullveldið árið 1918 og lýðveldisstofnunin á Þingvöllum 17. júní 1944. Er þó ótalinn sá atburður í nálægustu fortíð okkar sem skipt hefur mestu um efnahagslega framtíð þjóðarinnar; sigur okkar í landhelgisdeilunum, sem við innsigluðum með samningum við Breta þann 1. júní árið 1976 eða fyrir 30 árum. Þar með var óskorað vald okkar yfir efnahagslögsögunni tryggt. Lokaáfanginn á langri baráttu fyrir réttinum til nýtingar á helstu auðlind okkar var kominn í höfn.

Baráttan fyrir skýlausum yfirráðum yfir efnahagslögsögunni var gríðarlega hörð og grimmileg. Átökin sem af þeirri baráttu hlutust, jafnast ekki til nokkurs annars í samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Gömul og gróin vinaþjóð fór að okkur með hervaldi og beitti aðferðum sem stofnaði lífi íslenskra varðskipsmanna í hættu. Þetta er vitaskuld einsdæmi en sýnir okkur hve baráttan var hörð og hagsmunirnir miklir.

---------------

Enginn vafi er á því að útfærsla landhelginnar og óskoraður réttur okkar til auðlindanýtingarinnar innan hennar, lagði grunninn að lífskjarasókn um land allt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og raunar síðar. Uppbygging fiskiskipastólsins, endurnýjun fiskvinnslunnar og mikil viðreisn í byggðum landsins varð því aðeins möguleg að við gátum nýtt okkar helstu auðlind, fiskinn í kring um landið, til hagsbóta fyrir okkur sjálf.

Það hefur sannast í okkar tilfelli að skynsamlegasta nýting auðlindar getur því helst orðið að hún sé í höndum sjálfstæðrar þjóðar. Hnattræn stjórnun á auðlindum hafsins gengur aldrei upp. Nægir reynsla okkar af slíkum veiðistjórnunaraðferðum varðandi hvalastofna til þess að sýna okkur það svart á hvítu. Hagsmunir okkar sem fiskveiðiþjóðar felast í ábyrgri auðlindanýtingu og skynsamlegu skipulagi, sem færir þjóðinni hámarksafrakstur. Þó um þau mál sé deilt og verði deilt, leikur hins vegar enginn vafi á því að skynsamlegast er að öllu leyti að auðlindanýtingin í höndum þjóða, þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar eru ábyrgir gagnvart þjóðinni.

------------

Þetta er í rauninni kjarni landhelgismálsins. Tilvera okkar grundvallast á réttinum til þess að nýta auðlindina í hafinu.

Án þess réttar væri nútímaþjóðfélag eins og við þekkjum og gerum kröfur til, gjörsamlega óhugsandi. Þegar við nú horfum til framtíðar og hugum að tengslum okkar við aðrar þjóðir ber okkur að hyggja að þessari sögu okkar og því samhengi sem nauðsynlegt er að setja hana í. Baráttan fyrir landhelgisyfirráðunum og réttinum til þess að nýta auðlindirnar í hafinu var augljóslega rökrétt og sögulegt framhald annarra áfanga í fullveldisbaráttu okkar. Landhelgismálin eru fyrir margra hluta sakir merkileg að öðru leyti. Það fer til dæmis ekki á milli mála að forysta okkar á þessu sviði markaði spor í þróun alþjóðlegs hafréttar. Við ruddum leiðina og aðrar þjóðir urðu sporgöngumenn okkar.

Stundum er talað af takmarkaðri virðingu um stöðu lítilla þjóða og möguleika þeirra til áhrifa í samfélagi þjóðanna. Hér sjáum við um dæmi um hið gagnstæða. Með samþykkt - og síðar staðfestingu alþjóðahafréttarsáttmálans - urðu tímamót í sögu hafréttarmála. Með staðfestingu hans voru innsigluð þau sjónarmið sem íslensk stjórnvöld höfðu þá barist fyrir í ríf 30 ár.

----------------

Það fer vel á því að minnumst núna hinna mikilverðu tímamóta, er lyktir fengust fyrir 30 árum, í áratugalanga baráttu okkar fyrir óskoruðum yfirráðarétti íslenska lýðveldsins yfir landhelgi okkar og efnahagslögsögu. Okkur sem notið höfum afrakstursins ber að þakka öllum þeim sem að því máli komu og mörkuðu hin djúpu spor í þjóðarsöguna með framgöngu sinni. Og þó landhelgismálin hafi verið innlent pólitískt bitbein var samhugur um meginmarkmiðin.

Við sem nú stöndum í sveit stjórnmálanna og í forystu sjávarútvegsmála, ber að halda þessu merki á lofti. Nú vex úr grasi ný kynslóð fólks sem ekki minnist þess elds sem á okkur brann í landhelgisstríðunum og á ef til vill erfitt með að setja sig í þau spor. Þess vegna höfum við svo ríkar skyldur, að halda þekkingunni vakandi. Í því samfélagi alþjóðavæðingar sem við lifum nú, getur það vel gerst að sjónarmiðin sem lágu til grundvallar landhelgisbaráttunni gleymist og fyrnist. Það væri hættulegt og því eru kvaðir okkar svo ríkar að gæta þess að þeim meginsjónarmiðum verði ekki fórnað í þágu stundarhagsmuna.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband