30.3.2006 | 09:15
Tæknin varðveitir gömul ( og góð ) gildi
Allt er breytingunum undirorpið, sagði gamli Marx. Það á sérstaklega við á okkar tímum. Fátt er óumbreytanlegt. Allt í umhverfi okkar er þannig að við vitum aðeins eitt. Það breytist. Þetta er afsprengi framfara, tæknibreytinga og einnig forsenda framfara og tæknibreytinga. Það er einmitt þetta óvissuástand sem skapar ögun og ydddar hugsunina sem verður svo drifkraftur framfara okkar.
Þess vegna dugir skammt að gráta gengna tíð. Margt var gott hér fyrr meir, en við eigum framtíðina að verkefni og eins gott að gera sér grein fyrir því.
En mitt í allri framtíðarhugsuninni og framfaradýrkuninni reikar hugurinn til þess að framfarirnar kveikja ekki einasta breytingar. Þær eru líka skjöldur góðra hefða og forsenda margs þess úr fortíðinni sem við viljum varðveita; þó ekki væri nema vegna dygðugrar íhaldssemi sem vel má hafa í hávegum. Hér skal nefna tvennt í þessu sambandi, svo ólíkt sem það er; heimsendar breskar mjólkurflöskur og sendibréfagerð að íslenskum gömlum og góðum sið.
Blessaðar bresku mjólkurflöskurnar
Á stuttri ferð minni um Stóra Bretland á dögunum rakst ég einmitt á skemmtilega grein í sjálfu Daily Telegraph sem er einmitt málgagn íhaldssamra sjónarmiða í góðum skilningi þess hugtaks. Þar var verið að vekja athygli á því að sá huggulegi siður bresks samfélags, að fá mjólk í flöskum senda heim að dyrum fólks í bæjum og þorpum, hefði verið á miklu undanhaldi. Breyttir samfélagshættir og innkaupamynstur fjölskyldna þar sem fyrirvinnurnar eru tvær og vinna utan heimilis hefði lagt af þessa gömlu dyggð. Mjólkurpósturinn, sem var uppspretta margra sagna í fjölþættum skilningi var sumsé á útleið, þar til núna. Og það var blessuð tæknin sem sá fyrir því.
Nú er það fjarskiptatækni tölvusamfélagsins sem opnar nýja leið. Menn panta sér ekki lengur mjólkurskammtinn af útidyraþröskuldinum, heldur senda pöntunina í tölvupósti. Nú er því mjólkurpósturinn breski að ganga í endurnýjun lífdaga sinna.
Sendibréfin ganga í endurnýjun lífdaga
Svipað er það með sendibréfin. Þau voru samskiptaform síns tíma en tæknin var á góðri leið með að drepa það niður. Skype, MSN, símtæknin leystu sendibréfin af hólmi. Við sem skrifuðum til dæmis gamaldags sendibréf frá útlöndum í lok sjöunda áratugarins höfum verið eins og dínósárar frá genginni tíð í hugum þeirra yngri. En nú erum við að fá uppreisn æru. Bréfaskriftir á milli fólks eru öflugri núna en nokkru sinni fyrr.
Sendibréf eru nefnilega að ganga í endurnýjun lífdaga sinna og nefnast tölvupóstur. Formið er dálítið annað. Sjaldnast eins formlegt og sendibréfin. En það breytir því ekki; bréfaskriftir ganga nú á milli manna sem aldrei fyrr. Sendibréfin í þessu nýja umhverfi hafa gengið í rækilega endurnýjun lífdaga og það er vel.
Hin nýju sendibréf eru líka farin að verða vettvangur vísna og kveðskapar sem gengur sem eldur í sinu um netheimana. Þannig fær ferskeytlan líka nýtt líf og verður töm yngri kynslóðinni sem kann góð skil á tölvutækni og tölvupóstum, en kunni sýnilega síður að meta ferskeytluformið og vísnagerð af því taginu. Það er því ekki nóg með að tæknin varðveiti og endurveki gamla góða sendibréfið heldur hleypir nýju lífi í vísnagerð.
Tæknin varðveitir gömul gildi
Vísnagerð, mjólkurflöskur og sendibréf, sækja sem sé skjól sitt í svo óvænta átt sem til tölvutækninnar
Af þessu má ráða að tæknin er ekki bara ögrun við fortíðina. Hún er líka skjól gamalla og góðra hátta. Það má því með sanni segja að tæknin varðveiti gömul gildi.
Meginflokkur: Pistlar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook